EN

Joseph Haydn: Píanósónata í G-dúr

Joseph Haydn var drjúgan hluta starfsævi sinnar í þjónustu Esterházy-fjölskyldunnar en Esterházy-ættin var ein sú valdamesta í Austur-Evrópu og átti á þessu tímaskeiði miklar landareignir í Ungverjalandi, Austurríki og Bæjaralandi.

Hirðin hafði um langt skeið haldið mest til á tveimur stöðum, í Vínarborg og Eisenstadt sem liggur ríflega 40 kílómetra suður af höfuðborginni. Á þessu varð breyting fljótlega eftir að fagurkerinn prins Nikulás Esterházy I tók við völdum eftir daga bróður síns. Hafist var handa við byggingu nýrrar hallar sem skyldi taka öllum öðrum fram um glæsileika og minna á sjálfa Versali. Var þessi mikla bygging nefnd Esterháza en auk skrautlegra tónleikasala fyrir hljómsveitar- og kammerspil voru þar tvö leikhús, annað fyrir óperuflutning en hitt hýsti brúðuleikhús. Smíði hússins var að mestu lokið árið 1784 og hér samdi Haydn ógrynni verka sem leikin voru fyrir prinsinn og gesti hans enda var ekki slegið slöku við í veisluhaldi. Eitt af mörgum tilefnum til fagnaðar var brúðkaup hins 17 ára Nikulásar, sem var sonarsonur og alnafni ríkjandi valdhafa, og Maríu Jósefu prinsessu af Lichtenstein sem þá var 15 ára. Samdi Haydn þrjár píanósónötur, þar á meðal G-dúr sónötuna og tileinkaði hinni ungu prinsessu af þessu tilefni.

Það er því varla tilviljun að fyrsti kafli G-dúr sónötunnar ber yfirskriftina Allegretto innocente (allfjörlega og saklaust). Verkið er í tveimur köflum og í báðum þeirra leikur Haydn sér með stef í dúr og moll og spinnur út frá þeim þokkafull tilbrigði. Yfirbragð fyrsta kaflans er sætkennt og ljúft en sá síðari er rasandi hraður og ungæðislegur. Að sjálfsögðu er sónatan krydduð með stríðnislegum innskotum að hætti hússins.  

Síðar átti Haydn eftir að semja sex stórar messur fyrir nafndaga Maríu eftir að Nikulás II settist í húsbóndastól Esterházy-ættarinnar eftir lát föður síns Antons árið 1794 en hann hafði þá aðeins ríkt í fjögur ár.