EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Píanókonsert nr. 1

Sagan hefur að geyma ótal dæmi um listaverk sem vöktu hneykslan eða andúð í upphafi en sem síðari kynslóðir hafa talið til meistaraverka. Sjaldan hefur dómharkan þó verið jafn óskiljanleg og hjá Nikolai Rubinstein, rússneska píanósnillingnum sem var skólastjóri Tónlistarháskólans í Moskvu. Á aðfangadagskvöld 1874 lék Pjotr Tsjajkovskíj (1840–1893) glænýjan píanókonsert sinn fyrir Rubinstein í þeirri von að fá hjá honum hvatningu, og hugsanlega fáeinar athugasemdir um eitthvað sem betur mætti fara. Viðbrögðin rakti Tsjajkovskíj í bréfi þremur árum síðar:

„Ég lék fyrsta kaflann. Ekki eitt orð, ekki ein athugasemd! Ég ákvað að vera hugrakkur og spilaði verkið allt í gegn. Enn þögn. Ég stóð á fætur og spurði, „Jæja?“ Þá hófst orðaflaumurinn, fyrst hæglátur en tók smám saman að líkjast þrumuraust Júpíters. Hann sagði að konsertinn minn væri óspilandi, einskis virði, og svo óhönduglega saminn að ómögulegt væri að lagfæra hann; að verkið væri lélegt og yfirborðslegt; að ég hefði stolið þessum bút héðan og hinum þaðan. Í stuttu máli sagt: Hefði einhver ókunnugur ráfað inn í herbergið meðan á ræðunni stóð hefði sá hinn sami haldið að ég væri skilningssljór og hæfileikalaus fúskari sem hefði sótt heim virtan tónsnilling til þess eins að gera honum lífið leitt.“

Niðurlægingin var algjör. Tsjajkovskíj fór heim í fússi og hrópaði: „Ég breyti ekki einni einustu nótu“! Skömmu síðar frumflutti Hans von Bülow konsertinn á tónleikum í Boston, og vinsældirnar urðu strax slíkar að þegar kom að frumflutningnum í Moskvu lét gamli Rubinstein sig hafa það að stjórna verkinu. En hvað vakti svo hörð viðbrögð? Verkið er augljóslega ekki óspilandi, þótt Tsjajkovskíj hafi kannski ekki fyllilega ráðið við að leika einleikspartinn sjálfur, enda voru hæfileikum hans sem píanisti takmörk sett. Það sem virðist hafa farið mest í taugarnar á Rubinstein var óhefðbundin uppbygging fyrsta kaflans. Upphafsstefið fræga stendur fyrir utan hið hefðbundna sónötuform og er þar fyrir utan ekki í megintóntegund verksins. Síðari kynslóðir hafa þó sætt sig við hina óvenjulegu framvindu og nú til dags dettur engum í hug að fetta fingur út í hana. 

Annar þáttur konsertsins er hugljúft millispil eða intermezzo sem hefst á einni af innblásnustu laglínum tónskáldins. Um miðbik kaflans bryddar Tsjajkovskíj upp á annarri formnýjung, leifturhröðum scherzando-kafla þar sem einleikarinn fer á fingrahlaupum meðan strengirnir leika laglínu sem á uppruna sinn í Frakklandi, sönglagið Il faut s’amuser sem naut mikilla vinsælda um það leyti sem Tsjajkovskíj samdi konsertinn. Upphaf lokaþáttarins byggir Tsjajkovskíj á úkraínsku þjóðlagastefi. Tónlistin er full af fjöri, þrótti og glæsileika allt fram til síðasta takts, enda ekki við öðru að búast í einum vinsælasta einleikskonsert allra tíma – hvað svo sem leið dómhörku skólastjóra nokkurs í Moskvu fyrir tæpum 150 árum.