EN

Sergei Prokofíev: Kijé liðsforingi, svíta

Sergei Prokofiév (1891–1953) var einn sá fyrsti úr hópi frægra tónskálda til að semja tónlist við kvikmyndir. Samdi hann tónlist við einar 8 myndir og eru Aleksandr Nevsky (1938) og Ivan grimmi (1942–43) þeirra frægastar. Fyrsta myndin var aftur á móti Kijé liðsforingi (1933) í leikstjórn Aleksandrs Faintzimmer sem gerist í rússneska keisaraveldinu á fyrri hluta 19. aldar og er ádeila á skrifræði stórveldisins.

Efni kvikmyndarinnar byggir á gamansögu um Nikulás I rússakeisara sem misles skýrslu hernaðarráðgjafa síns með þeim afleiðingum að til verður liðsforingi að nafni Kijé. Auðmjúkar undirtyllurnar þora ekki að benda keisaranum á mistökin og ákveða að setja þennan óraunverulega hulduhermann á launaskrá hersins. Í framhaldinu gerist síðan margt spaugilegt og fyrir marga verður tilvist liðsforingjans mikil blessun vegna þess að hægt er að kenna honum um allt sem afvega fer í skrifræðisbákninu. Gengur þetta svo langt að Kijé liðsforingi er dæmdur til Síberíuvistar, en er óvænt náðaður af Nikulási keisara. Þegar keisarinn óskar eftir að fá að kynnast þessum áhugaverða skjólstæðingi sínum er honum sagt að liðsforinginn hafi dáið hetjudauða á vígvellinum. Keisarinn fylgir tómri kistunni síðasta spölinn og harmar missi þjóðar sinnar. 

Kvikmyndin er löngu gleymd en tónlist Prokofiévs lifir góðu lífi í fimm kafla svítu sem hann samdi uppúr kvikmyndatónlistinni árið 1934. Fyrsti kaflinn (Fæðing Kijés) hefst á fjarlægu, angurværu trompetstefi en brátt heyrist göngulag sem gefur í skyn framtíð Kijés sem hermanns. Í rómönsunni leikur saxófónninn heldur þunglyndislegan ástaróð sem barítónsöngvari syngur í kvikmyndinni. Keisaranum var annt um að foringjar hans lifðu í vígðri sambúð og lýsir þriðji kaflinn brúðkaupi söguhetjunnar og sá næsti (Troika) sleðaferð brúðhjónanna. Í lokakaflanum heyrast svo kunnugleg stef úr fyrri köflum svítunnar í ýmsum myndum en verkinu lýkur á fyrsta trompetstefinu.