EN

Richard Strauss: Svo mælti Zaraþústra

Richard Strauss (1864–1949) var undrabarn í tónlist; hann var tíu ára gamall þegar fyrstu tónsmíðar hans birtust á prenti og átti farsælan feril sem hljómsveitarstjóri á sínum yngri árum. Þar naut hann ekki síst stuðnings Hans von Bülow, sem gerði hann að aðstoðarstjórnanda sínum við hirðhljómsveitina í Meiningen. Hljómsveitin þar var víðfræg fyrir snarpan og nákvæman flutning og af dvölinni þar lærði Strauss fjölmargt um eiginleika og litbrigði sinfóníuhljómsveitar. Bülow hafði áður stjórnað frumflutningi á Tristan og Ísold Wagners og í kjölfarið misst eiginkonu sína, Cosimu dóttur Franz Liszts, í faðm Wagners fyrir fullt og allt.

Strauss hóf feril sinn sem fullþroska tónskáld með óperunni Guntram, sem er mjög undir áhrifum Wagners og hlaut misjafnar viðtökur. Hann lagði óperusmíði á hilluna um stundarsakir en tók til við að semja runu tónaljóða sem eru hvert öðru glæsilegra: Don Juan, Don Kíkóti, Till Eulenspiegel, Hetjulíf, Alpasinfónían og þannig mætti áfram telja. Svo mælti Zaraþústra var hið fimmta í röðinni, samið árið 1896 og frumflutt í Frankfurt í nóvember sama ár. Eftir lokaæfinguna skrifaði Strauss eiginkonu sinni upprifinn: „Zaraþústra er dásamlegt verk – langmikilvægasta tónsmíð mín til þessa, hin fullkomnasta í formi, sú dýpsta hvað innihaldið snertir. Ég er hæstánægður og þykir aðeins leitt að þú skulir ekki geta heyrt verkið. Hápunktarnir eru stórfenglegir, og útsetningin! Útsetningin er gallalaus – og tónleikasalurinn hjálpar líka til.“

Strauss var á þrítugsaldri þegar hann tók að drekka í sig hugmyndir Friedrichs Nietzsche, ekki síst hið nýútgefna rit Svo mælti Zaraþústra sem birtist fyrst í heild árið 1892. Margir hristu höfuðið yfir þeirri nýstárlegu umgjörð sem Nietzsche valdi hugmyndum sínum, þar sem saman fara listrænt skáldskaparform og heimspekilegar hugleiðingar. Í inngangi sínum að íslenskri þýðingu Jóns Árna Jónssonar að verkinu (útg. 1996) segir Sigríður Þorgeirsdóttir að líta megi á verk Nietzsches sem eins konar lærdómskvæði. Persneski spámaðurinn Zaraþústra var uppi á 6. öld fyrir Krists burð, en Nietzsche notar hann aðeins sem málpípu fyrir eigin hugmyndir, í 80 stuttum köflum sem lýsa skoðunum spámannsins á ýmsum málefnum.

Strauss tók yfirskriftir átta kafla úr Zaraþústra í tónsmíð sína sem hann gaf undirtitilinn „frei nach Friedrich Nietzsche“, frjálst eftir Nietzsche. Um ætlun sína með verkinu sagði hann: „Ég vildi tjá í tónlist hugmyndina um þróun mannkyns allt frá upphafi, gegnum hin ýmsu þróunarferli, trúarleg og vísindaleg, allt fram að hugmynd Nietzsches um ofurmennið.“ Þótt ofurmennisdraumar heimspekingsins hafi beðið skipbrot á 20. öld verður ekki hið sama sagt um tónsmíð Strauss, sem hafði öðlast sinn fasta sess á verkaskrá hljómsveita um allan heim löngu áður en Stanley Kubrick notaði innganginn í upphafsatriði kvikmyndarinnar 2001: A Space Odissey.  

Mikilfenglegir upphafstaktarnir eru hylling spámannsins til hinnar rísandi sólar. Fyrstu þrír tónarnir snúa aftur hvað eftir annað; þeir tákna náttúruna, óspillta og kraftmikla. Þessu stefi teflir Strauss gegn öðru dekkra (í h-moll) sem táknar mannkynið. Það hljómar fyrst í sellóum og kontrabössum skömmu eftir að inngangurinn deyr út. 

Því næst lýsir Strauss hinum trúuðu „handanheimsmönnum“ eða „veikburða mannkyni sem þráir Guð“. Tónskáldið átti það sameiginlegt með heimspekingnum að taka lítið mark á kristinni trú. Hér notar hann með kankvísum hætti gömul stef úr kaþólskum kirkjusöng; í nóturnar skrifar hann hefðbundna latínutextann sem fylgir hendingunum: Credo in unum Deum, og Magnificat. Ýmsir hafa raunar bent á að hér sé tilfinningaþrungin tónlistin svo áhrifamikil að kaldhæðni tónskáldsins missi jafnvel marks.

Í kjölfarið fylgja ástríðuþrungnir kaflar þar sem megintóntegundir verksins – C-dúr og h-moll – eiga í stöðugum árekstrum. Í þættinum „Um vísindin“ hljómar akademísk fúga þar sem hvert hljóðfærið af öðru spreytir sig á tólf tóna stefi þar sem stefjum náttúru og mannkyns er fléttað saman í eitt. Í næstsíðasta kaflanum, Dansljóðinu, hljóma glaðværar valsahendingar. „Ég myndi eingöngu trúa á Guð sem kynni að dansa“, segir Zaraþústra á einum stað. Hápunkti er náð þegar klukkurnar hringja inn miðnætti. Lokahendingarnar virðast gefa til kynna að mannkynið hafi náð yfirhöndinni, sigrast á náttúrunni í eitt skipti fyrir öll. Í lokatöktunum hljómar þó í sellóum og kontrabössum tónn sem ekki á þar beinlínis heima, og minnir hlustendur á hið gagnstæða – að ekki er öll von úti og að hugsanlega á náttúran sér enn viðreisnar von.