EN

W.A. Mozart: Sinfónía nr. 31

Parísarsinfónían

Í lok sumars 1777 stóðu Mozart-feðgarnir uppi atvinnulausir. Wolfgang hafði beðið Colloredo erkibiskup í Salzburg um lausn frá störfum við hirð hans og biskup brást við með því að segja upp bæði föður og syni. Í kjölfarið gerði Leopold son sinn út af örkinni að leita fyrir sér um nýja stöðu. Með Wolfgang í för var móðir hans; þau fóru fyrst til München, síðan til Ágsborgar og þaðan til Mannheim þar sem tónlistarlíf stóð með miklum blóma við hirð kjörfurstans. Þar komst Wolfgang í kynni við ýmsa úrvals tónlistarmenn — og við Weber-fjölskylduna sem hann átti síðar eftir að kvænast

inn í. En þótt gaman væri í Mannheim gekk hvorki né rak í atvinnumálunum og Leopold skipaði mæðginunum að halda næst til Parísar. Þangað komu þau seint í mars 1778. Við tóku erfiðir tímar. Mozart undi sér ekki í París, hafði lítið álit á franskri tónlist og fannst sínir eigin hæfileikar vanmetnir. Reiðarslagið kom svo þegar móðir hans veiktist alvarlega og lést í júlíbyrjun. Þrátt fyrir mótlætið samdi Mozart allnokkur verk meðan á Parísardvölinni stóð og er sinfónían sem jafnan er kennd við borgina merkust þeirra.

Parísarsinfónían var frumflutt opinberlega þann 18. júní í Concert Spirituel-tónleikaröðinni, sem fram fór í Tuileries- höllinni, og endurflutt nokkrum sinnum á þeim mánuðum sem í hönd fóru. Þættirnir eru aðeins þrír, það er enginn menúett-kafli hér eins og í þeim sinfóníum sem Mozart samdi næst á undan. Eftir frumflutninginn samdi Mozart nýjan hægan þátt, líklega að beiðni tónleikahaldarans, en það er sá upprunalegi sem við heyrum hér í kvöld. Líkt og Mozart hafði hæfni söngvara sinna í huga þegar hann samdi óperur, þá lagaði hann Parísarsinfóníuna að hljómsveitinni á staðnum og frönskum smekk. Á þessum tíma gengust Frakkar upp í því að hljómsveitarverk hæfust á kröftugan hátt, gjarnan með samtaka strófu allra hljóðfæra. Mozart sá hljómsveit Concert Spirituel fyrir slíkri byrjun enda þótt hann spaugaði með það í bréfi til föður síns að hann gæti nú ekki séð af hverju Frakkarnir væru svona montnir — „þeir byrja bara saman, svona eins og gert er annars staðar“! Honum fannst meira til tónlistarmannanna í Mannheim koma. En Parísarhljómsveitin var stór og þess sér stað í hljóðfæraskipan sinfóníunnar. Mozart semur hér fyrir flautur, óbó, klarinett, fagott, horn og trompeta – tvennt af hverju – fyrir utan strengina og pákur, og nýtir sér afar vel þau blæbrigði sem svo stór og fjölbreytileg hljómsveit gefur kost á.