EN

W.A. Mozart: Töfraflautan, forleikur

Die Zauberflöte (Töfraflautan) var síðasta óperan sem Mozart lauk við. Verkið er Singspiel, fyrsta ópera Mozarts við þýskan texta frá því að hann samdi Brottnámið úr kvennabúrinu níu árum fyrr. Þessar tvær óperur eru þó ólíkar um margt. Brottnámið var samin fyrir hirðóperuhús keisarans en Töfraflautan er alþýðuópera, samin með það fyrir augum að skemmta almenningi af öllum stéttum.

Í úthverfum Vínarborgar voru starfrækt nokkur gamanleikhús og eitt þeirra var Theater auf der Wieden. Þar sat við stjórnvölinn Emanuel Schikaneder, leikari og söngvari sem hafði um árabil ferðast um álfuna með leikflokk sinn. Þeim Mozart hafði orðið vel til vina þegar Schikaneder lék í Salzburg áratug fyrr. Samstarf þeirra í Vínarborg bar fljótt ávöxt, Mozart samdi til dæmis dúett fyrir óperuna Der Stein der Weisen (Viskusteinninn, 1790) og píanótilbrigði við aríu sem Schikaneder hafði gert vinsæla. Einnig voru góðir kunnleikar með Mozart og öðrum flytjendum við húsið. Nægir þar að nefna að ein aðalsöngkonan við leikhús Schikaneders – sú sem fyrst söng Næturdrottninguna – var Josepha Hofer, mágkona Mozarts.

Því hlaut að koma að því að þeir félagar reyndu fyrir sér með heila óperu. Mozart samdi megnið af Töfraflautunni snemmsumars 1791 og eflaust hefur hann einnig haft hönd í bagga með að smíða söguþráðinn. Engin önnur ópera Mozarts – eða samtímamanna hans ef út í það er farið – hefur að geyma jafn breitt litróf stíls og strauma. Persónurnar eru af ýmsum toga og tónlistin eftir því. Mozart semur ólgandi skrautaríur fyrir Næturdrottninguna, háleita sálma fyrir Sarastró, léttúðug alþýðulög fyrir Papagenó og blíða ástarsöngva fyrir Pamínu og Tamínó. Það er ekki aðeins persónusköpun óperunnar sem er víðfeðm, heldur fléttar Mozart saman í tónlist sinni nýjan og gamlan stíl af mikilli snilld. Áhrifa Bachs gætir meðal annars í forleiknum þar sem renna saman í eitt glaðværð Papagenós og ströng fúgulist sem tengja má við lærdóm og speki Sarastrós.