EN

Witold Lutosławski: Konsert fyrir hljómsveit

Pólska tónskáldið Witold Lutosławski (1913–1994) er í röð helstu tónskálda 20. aldarinnar. Sex ára gamall hóf hann nám í píanóleik í heimaborg sinni Varsjá. Nítján ára innritaðist hann í Tónlistarháskólann í Varsjá og lauk þaðan prófi í píanóleik fjórum árum síðar- og í tónsmíðum árið þar á eftir. Hann lauk við Sinfónísk tilbrigði árið 1939 og voru þau frumflutt af Pólsku útvarpshljómsveitinni í Varsjá í mars sama ár. Styrjöldin sem braust út stuttu síðar hafði margvísleg áhrif á líf og starf Lutosławskis. Hann var handtekinn af Þjóðverjum en tókst að flýja úr fangabúðum þeirra og gekk 400 km. leið heim til Varsjár og fór huldu höfði þar til stríðinu lauk. Þessi ár brauðfæddi hann sig með píanóleik á kaffihúsum Varsjár ásamt vini sínum, tónskáldinu Andrzej Panufnik. Í einum af þessum kaffihúsum varð stúlka að nafni Maria Danuta Bogusławska á vegi hans en hún átti síðar eftir að fylgja honum ævilangt sem eiginkona og hægri hönd í lífi og starfi. 

Fyrsta sinfónía Lutosławskis var frumflutt árið 1948 en hún var fordæmd af yfirvöldum og var Lutosławski í kjölfarið rekinn úr Tónskáldafélagi Póllands. Þetta andrúmsloft kúgunar varð til þess að Panufnik, vinur Lutosławskis, flúði land árið 1954 en Lutosławski þraukaði. Það sama ár var Konsert fyrir hljómsveit frumfluttur af Fílharmóníuhljómsveitinni í Varsjá. Aflaði verkið tónskáldinu tveggja verðlauna heima fyrir og alþjóðlegrar athygli en konsertinn er fyrsta stóra verk Lutosławskis í hinum þjóðlega stíl sem einkenndu verk hans eftir fyrstu sinfóníuna. Síðar átti stíll hans eftir að taka miklum breytingum.

Witold Lutosławski samdi Konsert fyrir hljómsveit undir áhrifum frá samnefndu verki Béla Bartóks frá 1943. Líkt og konsert Bartóks er verk Lutosławskis glæsitónsmíð þar sem allir hljóðfærahópar hljómsveitarinnar fá tækifæri til að láta ljós sitt skína. Verkið er í þremur þáttum og notar tónskáldið styrkleikasvið hljómsveitarinnar sem og tónsvið hljóðfæranna til hins ýtrasta í þessum tónbálki sem er fullur af hugmyndaauðgi og áhrifamiklum augnablikum.