EN

27. apríl 2017

Fjórar stjörnur í Gautaborg

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika í hinu víðfræga tónleikahúsi Gautaborgar 19. apríl síðastliðin. Með í för voru aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Yan Pascal Tortelier og píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson. Á efnisskránni voru verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Richard Strauss og Jean Sibelius. Hljómsveitin lék fyrir fullum sal og tónleikarnir tókust mjög vel og risu gestir úr sætum sínum að þeim loknum og klöppuðu hljómsveitina upp. Sinfóníuhljómsveitin fékk frábæra umfjöllun í sænskum og breskum fjölmiðlum.

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter og breski tónlistarvefurinn Bachtrack gáfu tónleikunum fjórar stjörnur. Gagnrýnandi Bachtrack: 

 

 

Tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Gautaborgar var sannkölluð sigurför og sýnir að hljómur sveitarinnar verðskuldar að heyrast oftar erlendis.

 

 

 

Í Göteborgs-Posten skrifar Magnus Haglund að það hafi þurft hugrekki til að koma með 2. sinfóníu Sibeliusar til Gautaborgar, þar sem sinfóníuhljómsveit borgarinnar hafi flutt verkið margoft víða um heim. Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands þótti honum vera gæddur ljósari litum en hann átti að venjast, baðaður nærri því impressjónísku ljósi. „Hér voru hafsvindar og breiður sjóndeildarhringur í stað hinna djúpu skóga norrænnar melankólíu.“ Haglund hrósaði einnig verki Önnu Þorvaldsdóttur, sem honum þótti sveima milli draums og veruleika og flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands einkennast af næmni og fágun.

Gagnrýnandi Dagens Nyheter, Martin Nyström, heillaðist einnig af verki Önnu Þorvaldsdóttur, Aeriality, sem hann segir að hefjist með þéttum og hráum hljóðmassa en sæki í sig veðrið og nái slíku flugi að það nálgist ljóshraða. „Glæsilegt!“ segir Nyström um verkið. Þar hafi bæst við að hin „nýja píanóstjarna“ Íslands, Víkingur Heiðar Ólafsson, hafi í Burlesku eftir Richard Strauss boðið upp á flugeldasýningu á píanóið sem hæfði tónlistarmanni frá eldfjallaeyjunni í norðri.  

 

Frekar um tónleikana:

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verkið Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem hefur hlotið verðskuldaða athygli undanfarin ár. Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik í Burleske eftir Richard Strauss. Víkingur þreytti frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001 og hefur síðan komið fram með þekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum víða um heim. Í dag var hann tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Hljómsveitin flutti að lokum sinfóníu nr. 2 eftir Jean Sibelius.

Tónleikarnir voru hluti af áskriftarröð Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg. Næsta vetur mun Gautaborgarsinfónían endurgjalda heimsóknina og koma til Íslands og leika fyrir gesti í Eldborg undir stjórn finnska hljómsveitarstjórans Santtu-Matias Rouvali. Tónleikarnir verða hluti af dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verða kynntir með efnisskrá starfsársins 2017-18.