EN

Philip Glass

Föstudagsröð

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
17. nóv. 2023 » 18:00 » Föstudagur Norðurljós | Harpa 4.200 kr.
Hlusta

Bandaríska tónskáldið Philip Glass hefur haft feikilega víðtæk áhrif á samtímamenninguna en eftir hann liggja óperur, sinfóníur, einleiks- og kammerverk og rafmögnuð verk fyrir hans eigin tónlistarhóp. Auk þess hefur hann átt í frjóu samstarfi við listamenn úr heimi popp-, rokk- og heimstónlistar, rithöfunda, dansara, leikhúsfólk og kvikmyndagerðarmenn svo eitthvað sé nefnt. Óperur Glass á borð við Einstein on the Beach og Akhnaten njóta ævinlega vinsælda þegar þær eru settar upp við helstu óperuhús heims, Glass hefur skrifað tónlist fyrir Óskarsverðlaunamyndir á borð við The Hours og kvikmynd Martins Scorsese, Kundun, en áhrifamesta verk hans í þeim miðli er þó eflaust leiðslukennd hljóðrásin við kvikmyndina Koyaanisqatsi. 

Sinfóníur Glass búa yfir sama seiðmagninu, en þær eru nú orðnar fjórtán talsins. Á þessum tónleikum stjórnar Ross Jamie Collins sinfóníu nr. 8, verki frá árinu 2005 sem pantað var af Bruckner-hljómsveitinni í Linz undir stjórn Dennis Russell Davies. Hljómsveitarstjórinn hvatti tónskáldið til að „líta á hljómsveitina sem samansafn virtúósískra einleikara á borð við þá sem einleikskonsertar eru gjarnan skrifaðir fyrir“. En líkt og tónskáldið segir sjálft er umfjöllunarefnið „tungumál tónlistarinnar sjálfrar“. 

*Upphaflega átti Daníel Bjarnason að stjóra tónleikunum en hann hefur því miður þurft að afboða komu sína. 

Sækja tónleikaskrá