EN

Bjarni Frímann Bjarnason

Staðarhljómsveitarstjóri

Bjarni Frímann Bjarnason var ráðinn staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2018 og hefur stjórnað hljómsveitinni við ýmis tækifæri. 

Bjarni Frímann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur og lauk prófi í víóluleik frá Listaháskóla Íslands. Árið 2009 bar hann sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í framhaldinu víólukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín.

Bjarni hefur komið fram víðsvegar um Evrópu, bæði sem strengja- og hljómborðsleikari. Hann hefur stjórnað mörgum af fremstu hljómsveitum á Íslandi, meðal annars Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Bjarni Frímann hefur seinni ár komið víða fram sem píanóleikari með söngvurum og sem kammertónlistarmaður m.a. í Berlínarfílharmóníunni og Konzerthaus í Vínarborg.

Árið 2012 vann Bjarni Frímann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir frumflutning á píanótilbrigðum eftir Viktor Orra Árnason. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Sama ár stjórnaði hann flutningi á óperunni UR eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2016–2017 stjórnaði Bjarni Frímann hljómsveitartónleikum með Björk Guðmundsdóttur í Mexíkóborg, Fílharmóníunni í Los Angeles og í Hörpu. Hann tók við stöðu tónlistarstjóra Íslensku óperunnar í janúar 2018 og hefur stjórnað uppfærslum hennar á Toscu, Hans og Grétu og La traviata.

Bjarni Frímann tók við stöðu staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2018 og gegnir stöðunni til tveggja ára. Sem slíkur gegnir hann veigamiklu og fjölþættu hlutverki hjá hljómsveitinni, fyrst og fremst á stjórnendapallinum, en líka í öðru listrænu starfi hljómsveitarinnar.