Ross Jamie Collins
Ross Jamie Collins hefur þegar vakið athygli í tónlistarheiminum fyrir framúrskarandi tónlistarhæfileika og mikla persónutöfra. Hann þreytti nýlega frumraun sína með Philharmonia-hljómsveitinni í Lundúnum ásamt stjörnufiðluleikaranum Randall Goosby, hann hefur nýlega stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í San Fransisco í hinni framsæknu SoundBox-tónleikaröð sveitarinnar, auk þess sem hann sneri á dögunum aftur til Sinfóníuhljómsveitarinnar í Turku eftir vel heppnaða frumraun með henni 2021. Þá stjórnaði Collins Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ársbyrjun 2023. Hann er nýútskrifaður úr framhaldsnámi við Colburn-konservatoríið í Los Angeles og hefur samhliða námi starfað sem Salonen-Fellow undir handarjaðri Esa-Pekka Salonen við Sinfóníuhljómsveitina í San Fransisco. Hefur hann aðstoðað Salonen bæði heima og heiman, svo sem með Philharmonia-hljómsveitinni í Lundúnum, NDR-hljómsveitinni í Elbphilharmonie í Hamborg, Fílharmóníusveitinni í Helsinki og Orchestre de Paris, auk sinfóníuhljómsveitanna í Houston og Fíladelfíu. Nú um stundir er Collins einnig Dudamel-Fellow hjá Fílharmóníusveitinni í Los Angeles.
Ross Jamie Collins var staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2023-24.