EN

Ertu að koma í fyrsta skipti?

Ert þú ekki daglegur gestur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar? Ertu kannski að fara í fyrsta skipti? Þá er kannski ágætt að fá nokkra punkta. 

Af hverju ætti ég að fara á tónleika?

Að vera á staðnum og upplifa tónlist sem flutt er af fyrsta flokks sinfóníuhljómsveit undir stjórn góðs hljómsveitarstjóra er ómetanleg upplifun. Það er hreinlega ekki hægt að lýsa því hvernig er að vera á tónleikum og finna hvernig tónlistin skapast í samspili hljóðfæraleikara, stjórnanda og áheyrenda – þú verður bara að vera á staðnum!

Hvaða tónleika á ég að velja?
Eins og með alla aðra tónlist er það spurning um smekk hvaða tónleika þú ættir helst að sækja. Ef þú átt enga sérstaka uppáhaldstónlist eða tónskáld er erfitt að velja því það er úr svo mörgu að velja. Nærtækt er að spyrja einhvern sem er vanur að fara eða spyrja í miðasölu hljómsveitarinnar, svo eru til allskonar upplýsingaveitur á vefnum sem geta komið fólki á sporið. Í raun má þó segja að best sé að mæta bara, athuga hvað manni finnst og prófa sig áfram. Það getur enginn valið nema þú.

Finndu gott sæti í salnum
Hvar maður situr er auðvitað líka smekksatriði. Sumir segja að öll sæti séu jafn góð en það er verðmunur á sætum eftir því hvar þau eru í Eldborg. Ráðleggingar um sætaval getur þú fengið í miðasölu og hafa ber að í huga að vinsælustu sætin seljast fyrst og því getur munað miklu að panta með fyrirvara. Um sætaval gildir þó svipað og um tónlistina að best er að prófa sig áfram.

Hvenær á að klappa og hósta?
Ástæða þess að ekki er alltaf klappað á milli „laga“ er sú að verkin sem leikin eru á sinfóníutónleikum skiptast oftast í nokkra kafla og það tíðkast ekki að klappa fyrr en í lok verksins. Hægt er að fylgjast með framvindu verksins í tónleikaskrá. Ef maður er ekki klár á hvenær á að klappa er best að bíða eftir að aðrir í salnum byrji. Með hósta og ræskingar gilda þær kurteisisvenjur að reyna að bíða með slíkt þangað til á milli kafla og láta ekkert á sér kræla á meðan hljómsveitin er að spila. Þetta er gert svo að allir geti notið tónlistarinnar sem best.

Komdu tímanlega
Það er ekki gott að mæta á síðustu stundu á sinfóníutónleika og gott er að vera kominn í húsið um 15 mínútum fyrir tónleika. Þú nýtur betur þess sem fram fer ef þú hefur tímann fyrir þér. Einnig býður vinafélag Sinfóníunnar reglulega upp á tónleikakynningu sem hefst kl. 18:20 fyrir utan Eldborg sem er tilvalin leið til að kynna sér verkin á efnisskránni. Salnum er síðan lokað um leið og tónleikarnir byrja. Þeir sem koma of seint þurfa að bíða þar til að hlé verður á leik hljómsveitarinnar til þess að ganga í salinn og missa þannig af hluta tónleikanna.

Taktu tónleikaskrá
Tónleikaskráin getur verið gullkista fyrir þig sem vilt vita meira um sígilda tónlist og verkin á tónleikunum. Í henni finnur þú ekki aðeins upplýsingar um hvað verður leikið heldur líka söguna á bak við verkin og þá hugsun sem liggur að baki þeim. Þegar þú lest um verkin fær tónlistin stundum nýja vídd.

Í hléinu
Hléið er 20 mínútur og hægt er að kaupa veitingar og spjalla við aðra tónleikagesti. Eða lesa tónleikaskrána aftur og spá í spilin.