EN

Ungsveit SÍ

Fyrirsagnalisti

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Eitt mikilvægasta hlutverk sinfóníuhljómsveita um allan heim er að miðla þekkingu sinni og áhuga til nýrra kynslóða hljóðfæraleikara. Ungsveitin hefur vakið verðskuldaða athygli en sveitin hlaut viðurkenningu Íslensku tónlistarverðlaunanna sem Bjartasta vonin árið 2016. Undanfarin átta ár hafa tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins tekið þátt ár hvert á Ungsveitarnámskeiði Sinfóníu-hljómsveitarinnar og náð undraverðum árangri undir leiðsögn framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra.

Á 10 ára afmælisári Ungsveitarinnar verður verkefnið glæsilegt, Sinfónía nr. 9 eftir Ludwig van Beethoven undir stjórn Daniels Raiskins.

Ungsveitin tekin tali: Spiluðu áfram í svartamyrkri

Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir konsertmeistari og Árni Daníel Árnason trompetleikari Ungsveitarinnar

Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir er konsertmeistari Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Árni Daníel Árnason er fyrsti trompetleikari hennar. Þrátt fyrir ungan aldur – Sólrún er tuttugu og eins árs en Árni Daníel sautján ára – hafa bæði tekið þátt í starfi sveitarinnar í nokkur ár.  „Þetta er mikill skóli,“ segir Árni, „að fá að vera í þessu húsi, og spila á sama sviði og Sinfóníuhljómsveit Íslands, með sama hljómsveitarstjóra, í sal sem er þekktur um allan heim fyrir hljómgæði. Það er mikill heiður,“ bætir hann við.