EN

Ungsveit Sinfóníunnar

Eitt mikilvægasta hlutverk sinfóníuhljómsveita um allan heim er að miðla þekkingu sinni og áhuga til nýrra kynslóða hljóðfæraleikara. Undanfarin ár hafa tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins tekið þátt í Ungsveitarnámskeiði SÍ og náð undraverðum árangri.

 

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands hélt sína fyrstu tónleika haustið 2009 í Háskólabíói. Ungsveitin hefur vakið verðskuld aða athygli en sveitin hlaut viðurkenninguna Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins hafa tekið þátt ár hvert á hljómsveitarnámskeiði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og náð undraverðum árangri undir leiðsögn framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra. Eliza Reid forsetafrú tók að sér hlutverk verndara Ungsveitarinnar á tíu ára afmælisári sveitarinnar árið 2019. 

Markmið Sinfóníuhljómsveitarinnar með hljómsveitarskóla Ungsveitarinnar er að gefa tónlistarnemendum innsýn og vettvang til að kynnast hinum sinfóníska heimi af eigin raun og njóta þjálfunar og leiðsagnar í hljómsveitarleik eins og um atvinnumennsku væri að ræða. Hljóðfæraleikarar Ungsveitarinnar þurfa að standast prufuspil sem líkir eftir aðstæðum prufuspila hjá Sinfóníuhljómsveitinni. 

Í Ungsveitinni eru gerðar strangar kröfur um faglega frammistöðu enda hafa tónleikar Ungsveitarinnar vakið eftirtekt fyrir samstilltan flutning og magnaða túlkun. Hljómsveitin í ár er skipuð tæplega 100 hljóðfæraleikurum sem valdir voru úr stórum hópi ungmenna sem léku um sæti í sveitinni með prufuspili.

Upplýsingar um Ungsveit SÍ veitir:
Hjördís Ástráðsdóttir, fræðslustjóri
hjordis.astradsdottir@sinfonia.is