EN

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Hljómsveit allra landsmanna

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð vorið 1950 og hefur um árabil verið í fremstu röð hljómsveita á Norðurlöndum. Hljómsveitin hefur fengið afbragðs dóma jafnt fyrir hljóðritanir sínar sem og tónleika heima og erlendis. Vorið 2011 varð Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur átt samstarf við níu aðalstjórnendur: Olav Kielland, Bohdan Wodiczko, Karsten Andersen, Jean-Pierre Jacquillat, Petri Sakari, Osmo Vänskä, sem jafnframt er heiðurs gestastjórnandi, Rico Saccani, Rumon Gamba og Ilan Volkov. Vladimir Ashkenazy hefur löngum verið aufúsugestur á Íslandi og stýrði Sinfóníuhljómsveitinni í fyrsta sinn árið 1972. Hann hefur nú um nokkurra ára skeið verið heiðursstjórnandi og stjórnar sveitinni árlega. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur um 60 tónleika á hverju starfsári, m.a. áskriftartónleika með heimsþekktum stjórnendum og einleikurum sem útvarpað er beint á Rás 1, fjölskyldutónleika, hljóðritar fyrir Ríkisútvarpið og erlend útgáfufyrirtæki og fer í tónleikaferðir jafnt innan lands sem utan. Hljómsveitin hefur komið fram á tónleikum við góðan orðstír m.a. í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Færeyjum, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritar reglulega fyrir BIS, Chandos og Naxos-útgáfurnar. Útgáfuröð hennar með sinfóníum Sibeliusar undir stjórn Petris Sakari hlaut frábærar viðtökur og hefur selst betur en allar aðrar útgáfur sveitarinnar til þessa. Nú vinnur SÍ að því að hljóðrita hljómsveitarverk Jóns Leifs fyrir BIS-útgáfuna og tónsmíðar franska tónskáldsins Vincents d'Indy fyrir Chandos-útgáfuna. Fyrsti diskurinn í þeirri röð var tilnefndur til Grammy-verðlauna fyrir besta flutning sinfóníuhljómsveitar árið 2009.