EN

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Hljómsveit allra landsmanna

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur um 60 tónleika á hverju starfsári, m.a. áskriftartónleika með heimsþekktum stjórnendum og einleikurum sem útvarpað er beint á Rás 1, fjölskyldutónleika, hljóðritar fyrir Ríkisútvarpið og erlend útgáfufyrirtæki og fer í tónleikaferðir jafnt innan lands sem utan. Hljómsveitin hefur komið fram á tónleikum við góðan orðstír m.a. í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Færeyjum, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritar reglulega fyrir BIS, Chandos og Naxos-útgáfurnar. Útgáfuröð hennar með sinfóníum Sibeliusar undir stjórn Petris Sakari hlaut frábærar viðtökur og hefur selst betur en allar aðrar útgáfur sveitarinnar til þessa. Nú vinnur SÍ að því að hljóðrita hljómsveitarverk Jóns Leifs fyrir BIS-útgáfuna og tónsmíðar franska tónskáldsins Vincents d'Indy fyrir Chandos-útgáfuna. Fyrsti diskurinn í þeirri röð var tilnefndur til Grammy-verðlauna fyrir besta flutning sinfóníuhljómsveitar árið 2009.