EN

Daníel Bjarnason

Listamaður í samstarfi

Daníel Bjarnason hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands í rúman áratug, bæði sem hljómsveitarstjóri og tónskáld. Hann hefur unnið með og fengið verk sín flutt af fjölda hljómsveita og má þar nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Sinfóníuhljómsveitirnar í Toronto, Winnipeg, Melbourne og Adelaide, Sinfóníuhljómsveit BBC í Skotlandi, Residentie-hljómsveitina, Ulster-hljómsveitina, Britten-sinfóníuna og Sinfóníettuna í Kraká. Hann hefur gefið út fjórar plötur hjá plötufyrirtækinu Bedroom Community, Processions (2010), Solaris (2012), Over Light Earth (2013) og Collider (2018). 

Meðal helstu verka Daníels eru óperan Brothers sem sýnd var á Íslandi á Listahátíð í Reykjavík við mikla hrifningu, og fiðlukonsert sem var pantaður af Fílharmóníusveit Los Angeles og Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumfluttur af Pekka Kuusisto og fyrrnefndu sveitinni undir stjórn Gustavos Dudamel í Hollywood Bowl. Daníel hefur gegnt stöðum staðarlistamanns og aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir nú stöðunni „listamaður í samstarfi“.

Meðal verkefna sem framundan eru með Daníel og Sinfóníuhljómsveit Íslands má nefna hljóðritun á nýrri plötu fyrir Sono Luminus. Þrjár plötur forlagsins með íslenskri tónlist í flutningi hljómsveitarinnar hafa vakið mikla athygli og var ein þeirra tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning.

Tónleikar framundan