EN

Maxímús Músíkús

Tónlistarmús

 

Maxímús Músíkús er fyrir löngu orðinn heimilisvinur barna á Íslandi. Ævintýrið um músina knáu hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí 2008. Í kjölfarið fylgdi músagangur víða veröld og í dag hafa margar aðrar hljómsveitir, í ýmsum löndum, flutt ævintýrið fyrir hlustendur á öllum aldri. 

Út hafa komið fimm myndskreyttar bækur ásamt meðfylgjandi geisladiskum með tónlist í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Bækurnar um tónelsku músina frá Íslandi hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál eins og kínversku, þýsku, færeysku, kóreönsku, portúgölsku og ensku. Höfundarnir, Hallfríður Ólafsdóttir og Þórarinn Már Baldursson eru bæði hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi hljómsveitarinnar, er verndari verkefnisins.

Fyrsta bókin, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, hlaut Fjöruverðlaunin sem barnabók ársins 2008 og Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar sama ár. Í kjölfarið fylgdu bækurnar Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum og Maxímús Músíkús kætist í kór. Þau tónlistarævintýri voru öll frumflutt á fjölskyldutónleikum hljómsveitarinnar.

Í nýjustu bókinni, Maxímús Músíkús fer á fjöll, ferðast hann um Ísland ásamt nýjum vinum sínum, músunum Vivu og Moto. Verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveit Los Angeles sem frumflutti það á Reykjavíkur-hátíð sinni í Walt Disney-tónlistarhöllinni vorið 2017. 

Maxi á heima í Hörpu eins og Sinfóníuhljómsveitin og er reglulegur gestur í Litla tónsprotanum og Barnastund hljómsveitarinnar.

Lagið hans Maxa

Þá má ekki gleyma Laginu hans Maxa, en það samdi Hallfríður sjálf, og þau Þórarinn bjuggu til textann. Í upptökunni, sem hægt er að nálgast hér að neðan, er lagið í flutningi Rannveigar Káradóttur söngkonu og Músabandsins.

Hér má hlusta á Lagið hans Maxa:
maximus_lagid

Sækið textann af laginu hér.
Sækið nótur af laginu hér.

Teikningar af Maxímús Músíkús

Hér eru nokkrar myndir af Maxa sem þú getur prentað út og litað! 

Hlekkur á PDF

Hlekkur á PDF

Hlekkur á PDF

Heimasíðan hans Maxa er maximusmusicus.com.