EN

Tónleikar & miðasala

Sumarnætur 13. sep. 19:30 Eldborg | Harpa

Sumarstemning ríkir á þessum tónleikum þótt farið sé að hausta. Hér hljómar hinn ljóðræni lagaflokkur Sumarnætur eftir Berlioz, sem margir telja eitt hans besta verk, ásamt fjörmiklum forleik Mendelssohns að Jónsmessunæturdraumi Shakespeares, sem tónskáldið samdi aðeins 17 ára gamall. Véronique Gens er fremsta sópransöngkona Frakklands um þessar mundir. Hún er fastagestur við óperuhús á borð við Covent Garden, Glyndebourne og Parísaróperuna, og söng fyrr á þessu ári með Berlínarfílharmóníunni við frábærar undirtektir. Nýjasti geisladiskur hennar var valinn einn af diskum mánaðarins hjá hinu virta tímariti Gramophone og tónlistarrýnir Guardian var sömuleiðis yfir sig hrifinn, sagði að söngur hennar væri „töfrandi“.

Seinni hluti tónleikanna er helgaður litríkri tónlist Richards Strauss. Á eftir serenöðu hans fyrir blásara hljómar hið mikilfenglega tónaljóð Tod und Verklärung (Dauði og uppljómun), þar sem lýst er þönkum listamanns á dauðastundu. Hér fær litríkur tónavefur Strauss að njóta sín bæði í tignarlegum hápunktum sem og í fíngerðustu stemningum hljómsveitarinnar. Hljómsveitarstjóri er Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hlusta

Ravel og Bartók 6. sep. 19:30 Eldborg | Harpa

Hinn franski Renaud Capuçon er einn fremsti fiðluleikari samtímans og ferðast um heiminn með Guarnierus-fiðluna sem áður var í eigu kennara hans, Isaac Stern. Á milli þess sem hann leikur kammertónlist með Mörthu Argerich og einleik með Berlínarfílharmóníunni stjórnar hann sinni eigin tónlistarhátíð í Aix-en- Provence. Á upphafstónleikum starfsársins leikur Capuçon glæsilegan fiðlukonsert Bartóks þar sem þjóðlegir dansar og nýrri stílbrögð módernismans fléttast saman með snilldarlegum hætti.

Píanótríó Ravels frá árinu 1914 er eitt hans dáðasta verk og almennt talið meðal meistaraverka franskrar kammertónlistar á 20. öld. Hér hljómar verkið í umritun fyrir sinfóníuhljómsveit sem sjálfur aðalstjórnandi Sinfóníunnar, Yan Pascal Tortelier, gerði og sem hefur hlotið frábæra dóma víða um heim. Tónleikunum lýkur með hinu sígilda meistaraverki Bolero, þar sem sakleysislegt stef ferðast um alla hljómsveitina við tifandi slátt sneriltrommu.

Hlusta

Klassíkin okkar -
Uppáhalds íslenskt
31. ágú. 20:00 Eldborg | Harpa

Tónleikarnir „Klassíkin okkar“ sem Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV hafa staðið fyrir undanfarin tvö ár hafa vakið fádæma hrifningu meðal landsmanna. Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullveldi var leikurinn endurtekinn með áherslu á íslenska tónlist 20. og 21. aldar. Landsmenn gátu valið eftirlætis íslensku tónverkin sín í kosningu á ruv.is og munu þau tónverk sem voru hlutskörpust hljóma á sérstökum hátíðartónleikum í Eldborg sem um leið er upptaktur að glæsilegu starfsári Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Einleikarar á tónleikunum verða Sæunn Þorsteinsdóttir sem leikur Bow to String eftir Daníel Bjarnason og Emilía Rós Sigfúsdóttir sem flytur Siciliano eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Einsöngvarar verða Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Sveinn Dúa Hjörleifsson og Þóra Einarsdóttir. Einnig koma fram Karlakórinn Fóstbræður undir stjórn Árna Harðarsonar, Gradualekór Langholtskirkju undir stjórn Þorvalds Arnar Davíðssonar, Skólakór Kársness undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur og Söngsveitin Fílharmónía undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Daníel Bjarnason.

Kynnar eru Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson en tónleikarnir verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV.

 • Efnisskrá

  Sigfús Einarsson Draumalandið
  Karl O. Runólfsson Í fjarlægð
  Sigvaldi Kaldalóns Ave Maria
  Páll Ísólfsson Í dag skein sól
  Jón Leifs Íslenskur rímnadans op. 11 nr. 4
  Jón Nordal Hvert örstutt spor
  Jórunn Viðar Vökuró
  Magnús Blöndal Jóhannsson Sveitin milli sanda
  Atli Heimir Sveinsson Snert hörpu mína
  Sigurður Þórðarson Sjá, dagar koma
  Páll Ísólfsson Brennið þið, vitar
  Þorkell Sigurbjörnsson Heyr himna smiður
  Jón Ásgeirsson Hjá lygnri móðu
  Jón Nordal Smávinir fagrir
  Atli Heimir Intermezzo úr Dimmalimm
  Hildigunnur Rúnarsdóttir Sanctus úr Guðbrandsmessu
  Þorkell Sigurbjörnsson Siciliano úr Columbine
  Daníel Bjarnason Bow to String, 3. kafli
  Jórunn Viðar Eldur
  Páll Ísólfsson Úr útsæ rísa íslands fjöll

 • Hljómsveitarstjóri

  Daníel Bjarnason

 • Einleikarar

  Emilía Rós Sigfúsdóttir
  Katie Buckley
  Sæunn Þorsteinsdóttir

 • Einsöngvarar

  Hallveig Rúnarsdóttir
  Hildigunnur Einarsdóttir
  Sveinn Dúa Hjörleifsson
  Þóra Einarsdóttir

 • Kórar

  Gradualekór Langholtskirkju
  Graduale Nobili
  Hamrahlíðarkórinn
  Karlakórinn Fóstbræður
  Skólakór Kársness
  Söngsveitin Fílharmónía

Horfa Hlusta

Óperan Brothers 9. jún. 19:30 Eldborg | Harpa

Íslenska óperan sýnir óperuna Brothers eftir Daníel Bjarnason í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands á Listahátíð í Reykjavík í júní 2018. Verkið sem fjallar um stríð, bræðralag og ástir, er byggt á samnefndri kvikmynd eftir Susanne Bier sem margir þekkja og librettóið er eftir Kerstin Perski.

Óperan, sem er fyrsta ópera tónskáldsins, var frumsýnd í Árósum síðastliðið haust í Den Jyske Opera og hlaut frábærar viðtökur áheyrenda og einróma lof gagnrýnenda. Brothers var valið tónverk ársins í sígildri- og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018. Leikstjóri uppfærslunnar er Kasper Holten sem lét nýverið af störfum sem óperustjóri Covent Garden.

Aðalæfing fyrir óperuna er föstudaginn 8. júní kl. 21:00.

 • Söngvarar

  Oddur Arnþór Jónsson
  Marie Arnet
  Selma Buch Ørum Villumsen
  Elmar Gilbertsson
  Þóra Einarsdóttir
  James Laing
  Jakob Zethner
  Hanna Dóra Sturludóttir
  Paul Carey Jones

 • Flytjendur

  Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór Íslensku óperunnar

 • Tónskáld og hljómsveitarstjóri

  Daníel Bjarnason

 • Líbrettó

  Kerstin Perski

 • Leikstjórn

  Kasper Holten

Hlusta

Behzod spilar Rakhmanínov 7. jún. 19:30 Eldborg | Harpa

Undrabarnið frá Úsbekistan, Behzod Abduraimov, spilaði sig inn í hjörtu tónleikagesta Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2015 þegar hann lék píanókonsert eftir Prokofíev með slíkum tilþrifum að tónleikagestir supu hveljur af hrifningu. Nú snýr hann aftur með einn vinsælasta konsert allra tíma í farteskinu. Píanókonsert nr. 2 eftir Rakhmanínov er ljóðrænn og tilþrifamikill í senn, sannkölluð flugeldasýning fyrir þá sem hafa gaman af píanóleik eins og hann gerist bestur.

Florence Price var fyrsta bandaríska blökkukonan til að leggja fyrir sig sinfónískar tónsmíðar og það með prýðilegum árangri. Hún vann til verðlauna fyrir fyrstu sinfóníu sína árið 1932 og í kjölfarið var verkið flutt af Sinfóníuhljómsveitinni í Chicago. Á síðustu árum hefur tónlist hennar verið grafin úr gleymsku og nú hljómar hún í fyrsta sinn á Íslandi. Bandaríski hljómsveitarstjórinn Joshua Weilerstein hlaut fyrstu verðlaun í hinni virtu Malko- hljómsveitarstjórakeppni árið 2009. Hann hefur síðan ferðast víða um lönd og stjórnað m.a. öllum helstu hljómsveitum Norðurlanda og hinni margfrægu Concertgebouw-hljómsveit í Amsterdam. 

Hlusta

Alina spilar Sibelius 25. maí 19:30 Eldborg | Harpa

Rússneski fiðluleikarinn Alina Pogostkina er fædd í Leníngrad og hóf fiðlunám fjögurra ára gömul, en fjölskylda hennar fluttist síðar til Þýskalands og hún stundaði framhaldsnám í Berlín og Salzburg. Hún hlaut fyrstu verðlaun í Sibelius-keppninni í Helsinki árið 2005 og hefur síðan komið fram með mörgum helstu hljómsveitum og stjórnendum heims, m.a. Gustavo Dudamel, Sakari Oramo og Vladimir Ashkenazy, auk þess að koma fram á tónlistarhátíðunum í Salzburg, Edinborg og Bergen. Fiðlukonsert Sibeliusar er sívinsælt meistaraverk og þessi sigurvegari Sibeliusar-keppninnar hefur fengið lof víða um lönd fyrir túlkun sína á einmitt þessu verki. Alina Pogostkina leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1717 sem hún hefur að láni frá Nippon Music Foundation.

Daniel Blendulf er margverðlaunaður sænskur hljómsveitarstjóri og er aðalstjórnandi Dalasinfoniettan. Hann stjórnar stemningsríku verki Kaiju Saariaho þar sem hún sækir innblástur í norrænan vetrarhiminn. Konsert fyrir hljómsveit var eitt síðasta verkið sem ungverski meistarinn Béla Bartók lauk við áður en hann lést úr hvítblæði árið 1945. Í konsertinum sýnir hann allar hliðar hljómsveitarinnar á glæsilegan hátt enda hefur þetta verið eitt af vinsælustu hljómsveitarverkum 20. aldar allt frá því það hljómaði fyrst.

Fiðluleikarinn Alina Pogostkina hleypur í skarðið fyrir Janine Jansen sem hefur neyðst til að aflýsa öllum tónleikum sínum undanfarnar vikur vegna veikinda.

Hlusta

LA / Reykjavík 5. okt. 19:30 Eldborg | Harpa

Horfa

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands

9. mars 1950.

Hér má heyra hljóðritun frá fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, með ávarpsorðum dr. Páls Ísólfssonar, sem haldnir voru í Austurbæjarbíói 9. mars árið 1950.pall_isolfsson Efnisskráin er svohljóðandi:

Tónleikarnir hefjast á ávarpi dr. Páls Ísólfssonar, þá er Þjóðsöngurinn leikinn og þá koma þessi verk: Beethoven: Egmont forleikurinn, Sjö rúmenskir þjóðdansar eftir Béla Bartók og Divertemento í b-dúr eftir Haydn fyrir flautu, óbó, klarinettu, fagott og horn.

Að lokum má heyra ófullgerðu sinfóníuna . Tekið skal fram að vegna höfundarréttar þá varð að sleppa verki Bartóks í þessu hlaðvarpi.

Stjórnandi á þessu fyrstu tónleikum var dr. Róbert A. Ottósson.

Smelltu hér til að hlusta