EN

Igor Stravinskíj: Sálmasinfónía

Igor Stravinskíj (1882–1971) sigldi til Bandaríkjanna í september 1939, aðeins fáeinum vikum eftir að styrjöld braust út á meginlandi Evrópu. Fyrsti áfangastaður hans var Boston, þar sem hann hélt fyrirlestra við Harvard-háskóla sem síðar voru gefnir út á bók, en að fáeinum mánuðum liðnum hélt hann vestur til Hollywood og festi kaup á húsi við North Wetherly Drive. Þar bjó hann næstu 30 árin og var það lengsta búseta hans í nokkurri borg um ævina. Þótt Stravinskíj hefði aldrei fyrr komið til Bandaríkjanna hafði hann samið tónverk fyrir bandaríska flytjendur, og Sálmasinfónían var einmitt fyrsta verkið sem hann samdi sérstaklega fyrir Bandaríkin.

Síðla árs 1929 falaðist hljómsveitarstjórinn Serge Koussevitzky eftir nýju verki frá Stravinskíj handa Sinfóníuhljómsveitinni í Boston í tilefni af hálfrar aldar afmæli hennar. Koussevitzky var fæddur í Rússlandi og hafði kynnst Stravinskíj þar, en eftir byltinguna fluttist hann til Boston og stjórnaði þar sinfóníuhljómsveit borgarinnar í aldarfjórðung. Koussevitzky var óþreytandi við að kynna nýja tónlist og meðal annarra verka sem hann pantaði í tilefni afmælisins voru píanókonsert Ravels í G-dúr og Konzertmusik Hindemiths, auk þess sem Respighi, Prokofíev og Honegger lögðu til ný tónverk. Stravinskíj lauk við Sálmasinfóníuna í Frakklandi í ágúst 1930 og upphaflega var áformað að flytja hana í Boston 12. desember, en aflýsa þurfti tónleikunum þar sem Koussevitzky veiktist á síðustu stundu. Verkið heyrðist fyrst í Brussel degi síðar undir stjórn Ernest Ansermet.

Koussevitzky gerði ráð fyrir að Stravinskíj myndi semja sinfónískt verk með hefðbundnu sniði en tónskáldið fór sínar eigin leiðir og nýja tónsmíðin varð kórverk við texta úr Davíðssálmum. Um jólaleytið 1929 tók Stravinskíj að hripa niður hendingar við 40. Davíðssálm og skömmu síðar festi hann á blað drög að því sem síðar urðu hröðu kaflarnir í þriðja þætti („Laudate Dominum“). Hljóðfæravalið er harla óvenjulegt en það hafði raunar lengi verið styrkur Stravinskíjs að geta skapað nýjan hljóðheim í hverju verki, hvort sem um er að ræða risavaxna fornaldarhljómsveit Vorblóts eða austurlenskt píanóslagverk í Les noces. Í Sálmasinfóníunni er kórinn í forgrunni ásamt tveimur píanóum og blásurum. Stravinskíj sleppir aftur á móti fiðlum, lágfiðlum og klarínettum, þar sem hann óttaðist að þessi hljóðfæri myndu gefa tónlistinni of „tilfinningasaman“ blæ. Að þessu leyti er hljómur verksins dæmigerður fyrir hið nýklassíska skeið hans (1923–52) þar sem hann reyndi að draga úr því sem honum þótti óþarfa tilfinningasemi tónlistarflytjenda. Stravinskíj kaus að hafa tónlistarflutninginn jafn tæran og sjálft innihaldið, og helst vildi hann láta barnakór syngja sópran og alt þótt hann hafi notast við fullorðinsraddir í báðum hljóðritunum sínum á verkinu (frá árunum 1931 og 1963).

Fyrsti þáttur hefst með snörpum hljómi þar sem píanóin eru í forgrunni. Annars er þátturinn að mörgu leyti eitt stórt crescendo sem nær hápunkti í lokatöktunum. Miðkaflinn sýnir glöggt áhrif Bachs á nýklassíska tónsköpun Stravinskíjs. Þátturinn er tvöföld fúga, þ.e. fyrst leika einleiksblásarar eina fúgu og síðan syngur kórinn aðra. Að lokum hljóma báðar fúgurnar um leið og þarf nokkuð hyggjuvit til þess að þannig gangi allt fullkomlega upp. Lokakaflinn bar upphaflega yfirskriftina Allegro symphonique. Stravinskíj sagði síðar að tónlistin væri „lofsöngur sem ætti helst að dansa við, rétt eins og Davíð dansaði frammi fyrir örk Drottins forðum“. Hér fléttar hann saman tvenns konar trúarstemningu, annars vegar upphafna kyrrð „Alleluia“-kaflanna sem snúa aftur í sífellu sem eins konar viðlag, hins vegar hraðan fagnaðarsöng með síbreytilegum áherslum.