EN

24. september 2025

Björn Skúlason verndari Ungsveitarinnar

Björn Skúlason maki forseta Íslands hefur tekið að sér hlutverk verndara Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Af því tilefni var hann viðstaddur tónleika Ungsveitarinnar í Eldborg í Hörpu sl. sunnudag þar sem sveitin flutti fjórðu sinfóníu Tsjajkovskíjs undir stjórn Nathanaël Iselin.

Eftir tónleikana heilsaði Björn upp á hljóðfæraleikara Ungsveitarinnar og ávarpaði sveitina og átti gott spjall við mörg þeirra.

Ungsveit_1761230367299 Ár hvert tekur fjöldi ungmenna úr tónlistarskólum landsins þátt í hljómsveitarnámskeiði Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ungsveitin hefur vakið verðskuldaða athygli allt frá því að hún var stofnuð árið 2009 og hlaut hún til dæmis viðurkenninguna Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Markmið Sinfóníuhljómsveitar Íslands með starfi Ungsveitarinnar er að gefa ungum tónlistarnemendum innsýn og vettvang til að kynnast hinum sinfóníska heimi af eigin raun og njóta þjálfunar og leiðsagnar framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra líkt og um atvinnumennsku væri að ræða.