EN

Ungsveit SÍ 2018

Umsóknafrestur er til 20. mars

Hljómsveitarnámskeið Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2018 stendur frá mánudeginum 27. ágúst til sunnudagsins 23. september 2018 og frá föstudeginum 25. til fimmtudagsins 31. janúar 2019 . Að þessu sinni verða verkefni Ungsveitarinnar Sinfónía nr. 5 eftir Dimtríj Shostakovitsj undir stjórn Daniels Raiskin í september og Handsfree eftir Önnu Meredith & David Ogle í janúar. Í janúarverkefninu flytur Ungsveitin Handsfree á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum.

Rússneski hljómsveitarstjórinn Daniel Raiskin stjórnar Ungsveitinni í annað sinn en hann náði ótrúlegum árangri með sveitina í Vorblóti Stravinskíjs. Hljómsveitarnámskeiðinu að hausti lýkur með glæsilegum tónleikum í Hörpu, 23. september kl. 17:00. 

Prufuspil um sæti í Ungsveit SÍ 2018 verða haldin fyrir öll hljóðfæri mánudaginn 9. og miðvikudaginn 11. apríl í Hörpu. 

Allir nemendur þurfa að sækja um til að leika með hljómsveitinni, líka þeir sem spiluðu með síðast. Hægt verður að nálgast umsóknareyðublöð á heimasíðu SÍ frá og með 6. febrúar. Umsóknarfrestur er til miðnættis 20. mars.

Umsóknareyðublað fyrir 2018

Umsækjendur fá staðfestingu á að umsókn hafi verið móttekin. Prufuspilspartar verða sendir út til nemenda í tölvupósti við fyrsta tækifæri eftir að umsókn hefur borist en prufuspilstímar verða sendir öllum umsækjendum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Sérstök prufuspil verða haldin um stöðu konsertmeistara. Hver umsækjandi þarf að leika fyrsta þátt úr fiðlukonsert nr. 3, 4 eða 5 eftir W.A. Mozart, ásamt kadenzu. Leikið er án píanómeðleiks.

Þeim sem ekki geta mætt í prufuspilið er bent á að senda inn myndbandsupptöku með hljóði í góðum gæðum á neðangreint netfang. Myndbandið á að vera tekið í einni töku. Ekki er hægt að sækja um konsertmeistarastöðu með innsendu myndbandi. Dómnefnd getur hins vegar farið fram á að hljóðfæraleikari sem sendir inn myndband verði látin leika um sæti innan sinnar deildar að hausti. 

Nemendum sem standast prufuspil verður boðið sæti í Ungsveit SÍ 2018 og þurfa þeir við upphaf námskeiðsins greiða 10.000 kr. skráningargjald sem er óafturkræft

Vinsamlegast athugið að Ungsveit SÍ er aðallega hugsuð sem vettvangur fyrir samspil nemenda sem lokið hafa miðprófi hið minnsta. Mikil samkeppni er um sæti í Ungsveitinni og þess vegna er lykilatriði að koma vel undirbúin/undirbúinn til leiks.

 

Upplýsingar um Ungsveit SÍ 2018 veitir
Hjördís Ástráðsdóttir, fræðslustjóri
Sími 5452504/8988934
hjordis@sinfonia.is