EN

Ungsveit SÍ 2020

 

Hljómsveitarnámskeið Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2020 stendur frá mánudeginum 14. september til sunnudagsins 27. september 2020. Verkefni Ungsveitarinnar að þessu sinni verður önnur sinfónía Sibeliusar undir stjórn Eivinds Aadland. Eivind hefur átt farsælt samstarf með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ungsveitinni og náð þar framúrskarandi árangri.

Hljómsveitarnámskeiðinu lýkur með glæsilegum stórtónleikum í Eldborg, Hörpu, sunnudaginn 27. september kl. 17:00.

Prufuspil í Ungsveitina 2020

Prufuspil fyrir Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2020 verða haldin með öðru sniði í ár vegna samfélagsaðstæðna. Að þessu sinni verður einungis prufuspilað inn í deildir þar sem umsækjendur eru fleiri en þau sæti sem í boði eru.

Prufuspilin verða rafræn og hér er hægt að nálgast nákvæmar leiðbeiningar fyrir þá sem þreyta þau. Ein undantekning er frá þessu fyrirkomulagi og það varðar umsækjendur um stöðu pákuleikara, þeirra prufuspil fer fram í Hörpu.

Umsækjendur í öðrum deildum eru skráðir til leiks í Ungsveitina, án prufuspils, og verður þeim raðað niður í sæti af prufuspilsnefndum Ungsveitarinnar.

Í ljósi aðstæðna teljum við þetta heillavænlegustu leiðina í ár og biðjum alla að sýna þessu fyrirkomulagi skilning og umburðarlyndi.

Þeir sem sækja um í eftirfarandi deildum eða um eftirfarandi stöður þurfa að senda inn upptöku:
     Þeir sem sækja um stöðu konsertmeistara
     Þeir sem sækja um stöðu í flautudeild
     Þeir sem sækja um stöðu í óbódeild
     Þeir sem sækja um stöðu í klarínettudeild
     Þeir sem sækja um stöðu í básúnudeild

Í pákudeild þurfa umsækjendur að þreyta prufuspil í Hörpu.
Pákuprufuspil fara fram eftir samkomulagi.

Frestur til að skila upptökum vegna prufuspila er til og með 24. maí nk.

Niðurstöður úr prufuspilum verða sendar þátttakendum þegar þær liggja fyrir, að öllum líkindum um mánaðamótin maí/júní.

 


Upplýsingar um Ungsveit SÍ 2020 veitir
Hjördís Ástráðsdóttir, fræðslustjóri
Sími 5452504/8988934
hjordis@sinfonia.is