EN

Eva Ollikainen

Aðalhljómsveitarstjóri

Finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen er aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hún tók við stöðunni í byrjun starfsársins 2020/21.

Eva Ollikainen hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim fyrir innblásna hljómsveitarstjórn. Hún hóf píanónám þriggja ára og þótti efnilegur píanisti, en þegar komið var í Sibeliusar-akademíuna skipti hún um fag og nam hljómsveitarstjórn hjá Jorma Panula og Leif Segerstam. Hún hreppti fyrstu verðlaun í Panula-keppninni fyrir unga hljómsveitarstjóra árið 2003 og var um skeið aðstoðarstjórnandi hjá Kurt Masur og Christoph von Dohnányi. Hún sótti einnig tíma í hljómsveitarstjórn hjá Pierre Boulez.

Ollikainen hefur meðal annars stjórnað Útvarpshljómsveitunum í Finnlandi og Svíþjóð, Fílharmóníusveitunum í Stokkhólmi og Turku, Tapiola-sinfóníettunni og Sinfóníuhljómsveitunum í Helsingborg, Lahti og Þrándheimi. Þá hefur hún stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Vínarborg og Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín. Fyrir skömmu stjórnaði hún í fyrsta sinn Fílharmóníusveitinni í Helsinki, í Níundu sinfóníu Beethovens, og nýrri uppfærslu af Turandot eftir Puccini í Dönsku óperunni. Þá stjórnaði hún Beethoven-hring með Jönköping Sinfonietta og ballettunum Hnotubrjótnum og Svanavatninu við Semperoper í Dresden.

Ollikainen kom fyrst til Íslands haustið 2005 og stjórnaði framhaldsskólatónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar með nær engum fyrirvara. Hún stjórnaði hljómsveitinni þrisvar sinnum á áskriftartónleikum á árunum 2007–10, meðal annars í sinfóníu nr. 4 eftir Brahms og Dafnis og Klói eftir Ravel, við frábærar undirtektir. Hún stjórnaði í fyrsta sinn í Hörpu í febrúar 2019 og skömmu síðar tók hún boði hljómsveitarinnar um að gerast aðalstjórnandi hennar.