Eva Ollikainen
Aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi
Finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen tók við stöðu aðalstjórnanda og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2020.
Eva stundaði tónlistarnám við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki og hreppti fyrstu verðlaun í Panula-keppninni fyrir unga hljómsveitarstjóra árið 2003. Hún kom fyrst til Íslands tveimur árum síðar og spannar samstarf hennar við Sinfóníuhljómsveit Íslands því meira en 15 ár. Þá stjórnaði hún framhaldsskólatónleikum hljómsveitarinnar með nær engum fyrirvara, en hún stjórnaði einnig nokkrum áskriftartónleikum á árunum 2007–2010. Hún stjórnaði í fyrsta sinn í Hörpu í febrúar 2019 og skömmu síðar tók hún boði hljómsveitarinnar um að gerast aðalstjórnandi hennar.
Eva Ollikainen hefur stjórnað fjölda virtra hljómsveita, meðal annars Útvarpshljómsveitunum í Finnlandi og Svíþjóð, Fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi og Sinfóníuhljómsveitinni í Vínarborg. Þá hefur hún stjórnað óperusýningum við Dönsku þjóðaróperuna og Semperoper í Dresden.
Á næsta starfsári mun Eva meðal annars þreyta frumraun sína með BBC-sinfóníuhljómsveitinni á PROMS í Lundúnum. Þá mun hún einnig stjórna Fílharmóníusveit Los Angeles í fyrsta sinn á tvennum tónleikum í Hollywood Bowl og í Walt Disney Hall.