EN

Tónleikaferðir SÍ

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur farið í 23 tónleikaferðir og haldið 101 tónleika erlendis frá því að fyrsta ferðin var farin til Færeyja árið 1977. Tónleikaferðir eru mikilvægur liður í starfsemi sinfóníuhljómsveita um allan heim en með þeim fær hljómsveitin alþjóðlega umfjöllun og umsagnir ásamt því að slíkar ferðir eru öflugar landkynningar fyrir land og þjóð. 

Þremur árum eftir fyrstu tónleikaferðina hélt hljómsveitin í ferð til Þýskalands og Austurríkis þar sem hún hélt 9 tónleika. Á næstu árum fór hljómsveitin reglulega í tónleikaferðir m.a. til Frakklands, Grænlands og Finnlands. Hljómsveitinni var síðan boðið að koma fram á tónlistarhátíðinni Europa Musicale í Þýskalandi haustið 1993. „Eyja hæfileikanna” var fyrirsögnin á gagnrýni Süddeutsche Zeitung, einu virtasta blaði Þýskalands, að tónleikunum loknum. Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, hélt ávarp í upphafi tónleikanna þar sem hún komst svo að orði um mikilvægi tónleikanna: „Við smáþjóðafólkið vitum mæta vel að við ráðum litlu um það hverni hinir stóru samnefnarar eru. Þeim mun meiri áhuga höfum við á því að eiga okkar eigin rödd, finna okkar eigin orð, okkar eigin tón. Ekki vegna þess að okkur langi til að slíta einingu þjóðanna með hjáróma sérvisku. Heldur til þess að geta lagt fram lifandi og lífvænlegan skerf til fjölbreytileikans í samfélagi þjóða.“ Í lok ávarpsins sagði Vigdís að hún væri hreykin af því að vera í för með hljómsveitinni, sem aukið hefði hróður sinn jafnt og þétt og borið hann víða vegu.

Næsta stóra tónleikaferð hljómsveitarinnar var í lok árs 1996 og hélt hljómsveitin þá 9 tónleika vítt og breitt um Bandaríkin undir stjórn Osmo Vänskä. Hljómsveitin lék m.a. í fyrsta sinn í Carnegie Hall í New York og voru viðtökurnar stórkostlegar, eins og dómur um tónleikana í New York Times ber vitni um. Gagnrýnandinn, Alex Ross, sagði flutninginn hafa farið fram úr björtustu vonum. „Einn allra besti flutningur á sinfóníu nr. 2 eftir Sibelius sem ég hef hlýtt á,“ skrifaði Ross; honum þótti kvöldið „algjörlega einstakt“ og bætti við: „Ef Vänskä stjórnar slíkum flutningi reglulega heima í Reykjavík fara Íslendingar einskis á mis í einverunni.“ 

Sinfóníuhljómsveit Íslands var síðan boðið að leika á BBC Proms hátíðinni undir stjórn Ilans Volkov árið 2014. Tónleikarnir voru haldnir fyrir fullu húsi í Royal Albert Hall en salurinn tekur yfir 5.000 manns. Hljómsveitin hlaut frábærar viðtökur frá áheyrendum og fjórar stjörnur frá gagnrýnanda The Times. Árið 2018 hélt hljómsveitin í sína fyrstu tónleikaferð til Asíu þegar hún hélt 12 tónleika og lék fyrir samtals 25.000 gesti. Uppselt var á alla tónleika hljómsveitarinnar í Japan og heppnaðist tónleikaferðin einstaklega vel.

ISO076

Tónleikaferðir Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa vakið gífurlega athygli á hljómsveitinni og því háa menningarstigi sem á Íslandi ríkir.

Tónleikaferðir Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Ár

Fjöldi tónleika

Tónleikastaður

2023  Bretland (London, Birmingham, Edinborg, 
Manchester, Nottingham, Cardiff, Basingstoke)
2020 8 Bretland (Nottingham, Norwich, London, Birmingham, Cardiff, Basingstoke, Leeds og Edinborg)
2019 5 Þýskaland (München og Berlín) og Austurríki (Salzburg)
2018 12 Japan (Kawasaki, Hamamatsu, Sapporo, Tokyo, Hiroshima, Fukuoka, Osaka, Nagoya, Okayama, Tokyo, Tokorozawa og Nagaoka)
2017 1 Svíþjóð (Gautaborg)
2014 1 England (Lundúnir) - BBC Proms tónlistarhátíðin í Royal Albert Hall
2013 2 Bandaríkin (Washington DC.) - Nordic Cool Festival í Kennedy Center
2007 5 Þýskaland (Köln, Dusseldorf, Braunschweig), Króatía (Zagreb), Austurríki (Vínarborg)
2007 2 Þýskaland (Berlín, München) - Europa Musicale
2007 1 Færeyjar (Þórshöfn)
2003 5 Þýskaland (Köln, Düsseldorf, Bielefeld, Osnabrück, Kiel)
2000 7 Kanada (Winnipeg, New Brunswick) og Bandaríkin (Kennedy Center Washington DC, Carnegie Hall NY, Ann Arbor Michigan, Las Vegas, Athens Georgia)
2000 1 Færeyjar (Þórshöfn)
1997 4 Grænland (Katuaq)
1996 1 Danmörk (Kaupmannahöfn)
1996 9 Bandaríkin (Orlando, Sarasota, Massachusetts, Brookville, Newark, Carnegie Hall NY, Daytona Beach, Vero Beach, Miami)
1994 2 Færeyjar (Þórshöfn, Klakksvík)
1993 1 Þýskaland (München) - Europa Musicale
1990 5 Finnland (Tammerfors, Helsinki, Åbo), Svíþjóð (Stokkhólmur), Danmörk (Kaupmannahöfn)
1987 2 Grænland (Nuuk)
1985 5 Frakkland (Chalon, Grenoble, Lyon, Nimes, Toulon)
1981 9 Þýskaland (Wiesbaden) og Austurríki (Eisenstadt, Vínarborg, Graz, Judenburg, Bludenz, Dornbirn, Egg, Zell am See)
1977 6 Færeyjar (Þórshöfn, Suðurey, Klakksvík)