EN

Vladimir Ashkenazy

Aðalheiðursstjórnandi

Vladimir Ashkenazy, aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er óumdeilanlega frægastur íslenskra ríkisborgara í klassíska tónlistarheiminum.

Hvarvetna á byggðu bóli bera menn óblandna virðingu fyrir umfangsmiklu starfi hans og djúphugulu viðhorfi til tónlistarinnar. Í ríflega hálfa öld hefur hann verið í hópi fremstu hljóðfæraleikara, eða allt frá því hann komst á verðlaunapall í þremur virtustu tónlistarkeppnum heims – hann hlaut önnur verðlaun í Chopin-keppninni í Varsjá árið 1955 og fyrstu verðlaun bæði í Queen Elisabeth-keppninni í Brüssel 1956 og Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu 1962.

Ashkenazy á að baki glæsilegan feril í hljóðverinu. Hann hefur hljóðritað flest höfuðverk píanóbókmenntanna og meðal nýlegra hljómdiska hans eru sjaldheyrð einleiksverk eftir Rakhmanínov og Diabelli-tilbrigði Beethovens. Ashkenazy hefur hlotið sex Grammy-verðlaun, m.a. sem besti einleikari með hljómsveit (píanókonsertar Beethovens með Georg Solti, 1974), fyrir bestu kammerhljóðritun (fiðlusónötur Beethovens með Itzhak Perlman, 1979), og besta einleiksdisk (prelúdíur og fúgur Shostakovitsj, 2000). 

Undanfarna áratugi hefur orðstír Ashkenazys sem hljómsveitarstjóra vaxið stöðugt, allt frá því að hann steig sín fyrstu skref á þeirri braut með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1972. Hann hefur verið aðalstjórnandi hjá virtum hljómsveitum á borð við Konunglegu fílharmóníusveitina í London og Tékknesku fílharmóníusveitina. Árið 2009 tók Ashkenazy við stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar í Sidney í Ástralíu, en hann hefur auk þess starfað með flestum frægustu hljómsveitum heims sem gestastjórnandi. 

Vladimir Ashkenazy er aðalheiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur undanfarin ár stjórnað henni í meistaraverkum tónbókmenntanna, meðal annars Draumi Gerontiusar eftir Britten, Stríðssálumessu Brittens, 9. sinfóníu Mahlers og Missa solemnis eftir Beethoven. Ashkenazy stýrði 1. sinfóníu Brahms á tónleikum hljómsveitarinnar í maí 2014 og lokar nú „Brahms-hringnum“ með 4. sinfóníu meistarans.

Ashkenazy var sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í apríl 2018 fyrir framlag sitt til íslensks tónlistar- og menningarlífs.