Hugi Guðmundsson verður staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Hugi Guðmundsson hefur verið útnefndur staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands og mun hann gegna stöðunni starfsárin 2026-27 og 2027-28. Hugi hefur fyrir löngu skipað sér í röð athyglisverðustu tónskálda þjóðarinnar. Hann lærði tónsmíðar við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík, Konunglega danska tónlistarháskólann og raftónlist við Sonology stofnunina í Haag. Hugi hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, jafnt innanlands sem á alþjóðlegum vettvangi. Þar á meðal eru Íslensku tónlistarverðlaunin, sem hann hefur unnið fimm sinnum. Verk Huga hafa í þrígang verið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og hlotið viðurkenningu á alþjóðlega tónskáldaþinginu Rostrum. Hugi hlaut nýverið starfslaun til 12 mánaða úr Launasjóði tónskálda.
Sem staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands mun Hugi semja fjögur hljómsveitarverk af ólíkum toga. Hann mun eiga verk á fyrstu áskriftartónleikum næsta tónleikaárs sem frumflutt verður undir stjórn Barböru Hannigan, en þetta eru jafnframt fyrstu tónleikar hennar eftir að hún tekur við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Þá vinnur Hugi að konsert fyrir Barböru Hannigan sem verður frumfluttur á tónleikum í maí 2027 þar sem hún verður bæði í hlutverki einsöngvara og hljómsveitarstjóra. Hugi vinnur einnig að tveimur tónverkum sem Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflytur starfsárið á 2027-28.
„Fyrir um tveimur árum síðan var ég í samtali við SÍ og Barböru Hannigan og fann strax fyrir miklum áhuga á mögulegu samstarfi. Það kom samt ánægjulega flatt upp á mig þegar þau viðruðu hugmynd að enn stærra samstarfi, í formi staðartónskálds hljómsveitarinnar. Ég var 16 ára þegar ég keypti mína fyrstu áskriftarröð hjá SÍ og hljómsveitin átti stóran þátt í tónlistaruppeldi mínu og í að móta mig sem tónlistarunnanda. Ég hef áður unnið með hljómsveitinni og veit hvaða frábæra mannauð hún hefur að geyma og hlakka þess vegna gríðarlega til komandi samstarfs með Barböru Hannigan og hljómsveitinni allri í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru.“ segir Hugi Guðmundsson.
Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir af þessu tilefni: „Að heyra ný íslensk tónverk verða til í meðförum þjóðarhljómsveitarinnar okkar er sérlega gleðilegt og spennandi. Það er líka algjörlega frábært að geta leitt þau saman til samstarfs, Barböru Hannigan og Huga, og ég hlakka mikið til að heyra hvað fæðist úr því samstarfi. Vonandi mun tónlistin sem þarna verður til ná að fljúga hátt og víða. Metnað, vandvirki og mikla hæfileika er víða að finna í íslenskri samtímatónlist og tónheimur Huga Guðmundssonar er frábært dæmi um það.“
- Eldri frétt
- Næsta frétt
