Fræðsluverkefni í samstarfi við Listasafns Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listasafns Íslands vinna í sameiningu að stóru fræðsluverkefni sem byggir á þjóðsagnaarfinum og ber heitið Stattu og vertu að steini. Hljómsveitin sendur fyrir skólatónleikum í Eldborg, Hörpu undir þessu heiti og Listasafn Íslands hefur sett upp samnefnda sýningu í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Titillinn, Stattu og vertu að steini, er vísun í þjóðsöguna Nátttröllið, en málverkið Nátttröllið á glugganum eftir Ásgrím Jónsson er einmitt málað eftir þeirri sögu. Á sýningunni má sjá valin verk úr safneign Listasafns Íslands sem með ólíkum hætti fjalla um þjóðsögur og sagnaheiminn þeim tengdum.
Á skólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg gerir hljómsveitin þjóðsagnaarfinum skil í tónum á meðan myndlistinni er varpað upp á tjaldið í Eldborg. Sagðar verða sögur líkt og í gamla daga þegar fólk kom saman í baðstofunni til að hlusta á eitthvað spennandi. Sagt verður frá dýrum sem geta talað og allskonar kynjaverum, draugum, tröllum, álfum og huldufólki. Sögumaður er Ólafur Egill Ólafsson og hljómsveitarstjóri er Ingunn Korsgård Hagen. Fernir skólatónleikarnir verða haldnir dagana 10. og 11. febrúar og á hljómsveitin von á 3.700 nemendum og kennurum í sal. Þegar er uppbókað á alla tónleikana. Þá verður einnig beint myndstreymi frá tónleikunum á vef hljómsveitarinnar, sinfonia.is, miðvikudaginn 11. febrúar kl. 11:00.
Þetta er annað samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listasafns Íslands en fyrra verkefnið, Fljúgðu, fljúgðu klæði, byggði ævi Ásgríms Jónssonar og list hans. Þriðja samstarfsverkefni hljómsveitarinnar og Listasafnsins verður á dagskrá á vordögum 2027 undir yfirskriftinni Í grænni lautu. Í því verkefni verður Grasagarður Reykjavíkur einnig samstarfsaðili.
