EN

Vorblótið

Daníel Bjarnason og Sæunn Þorsteinsdóttir

Áskrift veitir þér 20% afslátt af miðaverði. Tryggðu þér áskrift eða endurnýjaðu áskriftina þína hér á vefnum.
Dagsetning Staðsetning Verð
21. feb. 2019 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.800 kr.

Vorblót Stravinskíjs er meðal dáðustu hljómsveitarverka 20. aldar og um leið eitt hið áhrifamesta; Pierre Boulez kallaði það „fæðingarvottorð nútímatónlistar“. Tónlistin er kröftug og spennuþrungin, hefur að geyma krassandi hljóma og óvæntan hryn, en mörg stefjanna eru sótt í rússnesk og litháísk þjóðlög. Í verkinu er lýst fornri helgiathöfn þar sem valin er ein úr hópi ungra meyja til að dansa sig til dauða – og tryggir þannig komu vorsins. Flutningur Vorblóts á Íslandi telst ávallt stórviðburður, ekki síst þegar íslenskur hljómsveitarstjóri er við stjórnvölinn.

Daníel Bjarnason hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem einn fremsti tónlistarmaður landsins. Verkið Bow to String hefur hlotið mikla athygli á undanförnum árum og hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi í útsetningu fyrir selló og sinfóníuhljómsveit. 

Daníel samdi verkið fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur sem er einn fremsti sellisti Íslands. Hún heldur tónleika víða um heim, er m.a. fastagestur í Carnegie Hall og kom fram með Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles á rómaðri Íslandshátíð þeirra árið 2017. Upptaktur að tónleikunum er svo hið undurfagra og kyrrláta Fratres eftir Arvo Pärt sem er ein hans allra fegursta tónsmíð, dáleiðandi tilbrigði um sex takta stef.

Breyting á efnisskrá: Upphaflega stóð til að Pekka Kuusisto léki fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar á tónleikunum en hann þurfti að aflýsa komu sinni vegna handarmeins. Í hans stað flytur Sæunn Þorsteinsdóttir Bow to String eftir Daníel.

Tónleikarnir verða teknir upp í mynd og streymt beint hér á vef hljómsveitarinnar ásamt því að vera útvarpað á Rás 1.

Sækja tónleikaskrá