EN

Sæunn Þorsteinsdóttir

Sellóleikari

Sæunn Þorsteinsdóttir er einn fremsti sellóleikari Íslands og hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir innblásinn og tilfinningaþrunginn leik sinn. Hún byrjaði fimm ára gömul að læra á selló við Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins en hún fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna þegar hún var sjö ára. Sæunn lauk meistaraprófi frá Juilliard-tónlistarháskólanum í New York og hefur leikið á fjölda tónleika og tónlistarhátíða um allan heim. Sæunn hefur meðal annars komið fram sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles, sinfóníuhljómsveitum Toronto, Seattle, BBC og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrir nokkrum árum kom út hljómplata þar sem Sæunn leikur einleikssvítur Brittens fyrir selló. 

Sæunn er stofnandi kammerhópsins Decoda, sem hefur að markmiði að glæða flutning kammertónlistar nýju lífi með skapandi fræðslu og samfélagsþátttöku. Sem flytjandi kammertónlistar hefur hún komið fram m.a. í Carnegie Hall og Suntory Hall í Japan, og hefur leikið kammertónlist m.a. með Itzhak Perlman, Mitsuko Uchida og Richard Goode.  Sæunn kennir nú við Washington-háskóla í Seattle samhliða því að koma fram á tónleikum víða um heim. Árið 2019 var Sæunn tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir hönd Íslands.

Nýjasti diskur Sæunnar kom út hjá amerísku útgáfunni Sono Luminus vorið 2019 og inniheldur fjögur verk eftir íslensk tónskáld; Afterquake eftir Pál Ragnar Pálsson, 48 images of the moon eftir Þuríði Jónsdóttur, O eftir Halldór Smárason og Solitaire eftir Hafliða Hallgrímsson.

Sæunn leikur næst einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands 26. september 2019. Á efnisskránni er sellókonsert nr. 2 í D-dúr eftir Haydn. Hljómsveitarstjóri er Karina Canellakis.