EN

Ígor Stravinskíj: Vorblót

Ekki er ofsögum sagt að Vorblót sé það tónverk sem mest áhrif hafði á framgang tónlistar á 20. öld. Franska tónskáldið Pierre Boulez kallaði það „fæðingarvottorð  nútímatónlistar“ og áhrifum þess á samtímann má helst líkja við þau sem sinfóníur Beethovens höfðu á 19. öld. Vorblót er enn eins og eldfjall í tónum, það býr yfir óendanlegum krafti til að stuða, æsa, hrella, koma úr jafnvægi. Hugmyndin að verkinu kviknaði vorið 1910. Samkvæmt endurminningum tónskáldsins, sem raunar ber að taka með fyrirvara, fékk hann augnabliks vitrun sem kom honum í opna skjöldu: „Ég sá í hugskoti mínu heiðna helgiathöfn – vitrir öldungar sitja í hring og horfa á unga stúlku dansa sig til dauða. Hún var fórn þeirra til friðþægingar guðum vorsins.“ Ári síðar gat Stravinskíj helgað sig hinu nýja verki af fullri alvöru. Þá fundaði hann með rússneska listmálaranum og fornleifafræðingnum Níkolaj Roeríkh og í sameiningu sömdu þeir atburðarásina á fáeinum dögum. Roeríkh var sérfræðingur í slavneskri sögu og þjóðfræðum, og hannaði búninga ballettsins og sviðsmynd auk þess að fara höndum um söguþráðinn. Hlutur hans í Vorblóti verður seint ofmetinn. 

Ballettinn skiptist í tvo hluta og atburðarásin er á þessa leið. Í fyrri hlutanum („Koss jarðarinnar“) er vorinu fagnað. Ungar stúlkur stíga vordans og ættbálkurinn skiptir sér í hópa sem dansa saman. Inn á sviðið ganga hinir öldnu vitringar þorpsins og sá elsti þeirra stöðvar dansinn. Öldungarnir blessa jörðina og því næst stígur ættbálkurinn „Dans jarðarinnar“ af miklum ákafa; þungum skrefunum er ætlað að vekja náttúruna af vetrardvala. Annar hluti („Fórnin“) fer fram að næturlagi. Ungmeyjarnar stíga seiðandi hringdansa sem hafa þann tilgang að velja fórnarlamb, stúlku sem mun láta lífið til að tryggja komu vorsins. Að lokum stendur ein stúlka eftir í hringnum, hálflömuð af ótta. Meyjarnar dansa henni til heiðurs og fela hana öldungunum. Hún dansar fórnardans í návist þeirra og hnígur að endingu lífvana niður. 

Vorblót boðaði byltingu í mörgu tilliti – ekki síst í hljómavali, hryn og áferð. Stravinskíj notar víða í verkinu „samsetta“ hljóma – lætur tvo þríhljóma mynda einn þéttan, ómstríðan og margslunginn hljóm. Sem dæmi má nefna „Vorboða“ hljóminn fræga í fyrri hluta verksins, þegar tveir þríhljómar hljóma saman. Þótt hljómurinn sé nýstárlegur þá er það ekki síður athyglisvert hvað Stravinskíj gerir við hann. Hann er endurtekinn í sífellu en með óreglulegum áherslum sem varla er hægt að sjá fyrir. 

Þrástef eru einnig áberandi í verkinu, lagbútar sem hljóma aftur og aftur óbreyttir, stundum margir í einu. Þeir gefa tónlistinni þráhyggjukenndan blæ og magna upp frumstæða og ógnvekjandi eiginleika hennar. 

Af öllum nýjungum Vorblóts er hrynurinn þó róttækastur. Í flestum tónverkum er taktinum skipað þannig að þungt slag kemur með reglulegu millibili, til dæmis á öðru, þriðja eða fjórða hverju slagi. Hér leggur Stravinskíj upp með andstætt lögmál. Hreyfingunni er skipt niður í síendurtekin slög sem oft mynda óreglulegar lotur. Stundum eru nótnagildin sem liggja til grundvallar örstutt, og í lokadansinum er varla nokkur leið að sjá fyrir síkvikar breytingar á taktmynstrinu: 3/16, 2/16, 3/16, 3/16, 2/8, o.s.frv. Hér ruddi Stravinskíj nýja braut enda reyndist honum þrautin þyngri að finna réttan rithátt fyrir tónlistina sem ómaði í höfði hans. Eins og hann komst sjálfur að orði: „Ég gat spilað tónlistina en vissi í fyrstu ekki hvernig ég ætti að festa hana á blað.“ 

Þrátt fyrir ómstríða tóna og tíð taktskipti er Vorblót þó að vissu leyti hlustendavæn tónsmíð. Það gera ekki síst þjóðleg stefin sem hljóma annað slagið verkið á enda og gefa því rússneskan blæ. Stravinskíj leitaði hér fanga í þjóðlagasafni kennara síns, Rímskíj-Korsakovs, en sótti einnig fimm stef í safn litháískra þjóðlaga sem prestur að nafni Anton Juszkiewicz tók saman og gaf út í Póllandi árið 1900. Það er þessi samruni þjóðlegra stefja og módernisma sem gefur Vorblóti svo sérstakt yfirbragð. Þó gerði Stravinskíj lítið úr þeim ytri áhrifum sem lágu til grundvallar hans eigin tónsmíð. Hann hélt því til dæmis statt og stöðugt fram að aðeins eitt þjóðlag væri að finna í verkinu – fagottsólóið í upphafi – þótt sýnt hafi verið fram á að þau séu mun fleiri. „Ég hafði enga hefð til að styðjast við þegar ég samdi Vorblót,“ sagði hann. „Ég hafði ekkert nema eigin eyru til að hjálpa mér.“ 

Sögufrægur frumflutningur Vorblóts fór fram 29. maí 1913 í nýjasta leikhúsi Parísarborgar, Théâtre des Champs Elysées. Tíðarandinn kallaði á óblíðar móttökur íhaldsafla á nýrri tónlist hvort sem var í París eða Vínarborg, eins og frumflutningurinn á Altenberg-söngvum Albans Berg aðeins tveimur mánuðum áður er til marks um; í því tilviki þurfti raunar að slá af og aflýsa tónleikunum. Uppþotið við frumflutninginn á Vorblóti hefur þó orðið frægast allra slíkra á spjöldum sögunnar. Hljómsveitarstjórinn Pierre Monteux lýsti atburðarásinni svo: „Áheyrendur voru þöglir fyrstu tvær mínúturnar. Þá fóru að heyrast öskur og óhljóð af svölunum, stuttu seinna höfðu þau breiðst út um allan salinn. Sessunautar tóku að lúskra hver á öðrum með hnefunum, gönguprikum eða hverju því sem hendi var næst. Brátt var reiðinni líka beint að dönsurunum og að lokum að hljómsveitinni, sem einmitt var að fremja stærsta glæpinn. Öllu sem hönd á festi var fleygt í átt til okkar en við héldum áfram að spila eins og ekkert hefði ískorist.“ Sjálfur kom Stravinskíj baksviðs mitt í öllum hamaganginum. Þá hafði Djagílev tekið upp á því að kveikja og slökkva ljósin í salnum til skiptis í lokatilraun til að koma á ró í salnum; Nízhínskíj stóð að tjaldabaki og hrópaði æfinganúmer í átt að dönsurunum í þeirri veiku von að þeim tækist að halda öllu saman. Lögreglan kom á staðinn um það leyti sem verkinu lauk en þá var tónskáldið flúið út um glugga baksviðs og ráfaði í öngum sínum um stræti Parísar. 

Raunar voru það frumstæð spor dansaranna sem ollu uppnáminu fremur en tónlist Stravinskíjs. Ballettstjórinn Djagílev hafði falið ástmanni sínum, Vatslav Nízhínskíj, að semja sporin og þar tók hann nokkra áhættu. Nízhínskíj var 24 ára og ein skærasta stjarna ballettheimsins en var lítt reyndur sem danshöfundur. Helsta takmark hans með dansinum við Vorblót var að hann liti alls ekki út eins og ballett. Hreyfingarnar áttu að vera frumstæðar, kraftmiklar, næstum villimannslegar – eins langt frá hinni fáguðu balletthefð 19. aldar og hugsast gat. Tignarleg stökk og þokkafulla líkamsbeitingu var hvergi að finna. Þess í stað áttu dansararnir að vera innskeifir og stirðbusalegir í öllum hreyfingum, stappa klunnalega með fótunum og hoppa um sviðið með hokið bak. Enda skyldi engan undra að dansararnir skyldu þurfa yfir hundrað æfingar með píanói til að læra nýju hreyfingarnar. 

„Ég hef hvorki fyrr né síðar fundið til þvílíkrar reiði,“ sagði Stravinskíj síðar um frumflutninginn. „Ég var gjörkunnugur tónlistinni, mér þótti vænt um hana og ég gat ekki skilið hvernig fólk sem aldrei hafði heyrt hana gat mótmælt henni að óreyndu.“ Ári síðar var Vorblót leikið á tónleikum í París og þá var annað upp á teningnum, hrifningin var slík að eftir tónleikana þyrptust þakklátir aðdáendur að tónskáldinu. Þar með voru örlög tónlistarinnar ráðin. Vorblót er nú fyrst og fremst sjálfstætt tónverk og það sem eitt sinn þótti óspilandi þykir sjálfsagður liður í inntökuprófum í sinfóníuhljómsveitir um allan heim. Þrátt fyrir misvísandi yfirlýsingar tónskáldsins er ljóst að Vorblót átti sér langan aðdraganda og að áhrifin komu víða að. Það gerir byltingarkraft þess ekki vitund minni.