EN

Kór Hallgrímskirkju

Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú um 55 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann leggur mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og stuðlar að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Kórinn hefur pantað og frumflutt verk eftir Finn Karlsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Sigurð Sævarsson, Hjálmar H. Ragnarsson, Þorvald Örn Davíðsson og Hildigunni Rúnarsdóttur. Kór Hallgrímskirkju hefur einnig átt í gjöfulu samstarfi við Barokkbandið Brák og verða næstu tónleikar af því tagi þann 3. desember næstkomandi undir yfirskriftinni Barokk á aðventunni. Tónleikarnir í kvöld marka fyrsta skiptið sem Kór Hallgrímskirkju kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.