Kór Hallgrímskirkju
Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú um 60 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann leggur mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og stuðlar að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Á síðasta starfsári flutti hann til dæmis ný verk eftir Báru Grímsdóttur, Finn Karlsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson og Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Kórinn hefur átt í gjöfulu samstarfi við Barokkbandið Brák og staðið með því fyrir flutningi á verkum eftir Bach, Telemann, Haydn og Mozart. Kór Hallgrímskirkju kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn í október 2023, á tónleikum sem helgaðir voru verkum Önnu Þorvaldsdóttur og hlutu mikið lof.