EN

Anna Þorvaldsdóttir: Ad Genua

Tónverkið Ad Genua var samið að beiðni hins margverðlaunaða bandaríska kammerkórs The Crossing sem fékk, laust fyrir árið 2016 sjö tónskáld úr ólíkum áttum til semja tónlist út frá óratoríunni Membra Jesu Nostri eftir danska barrokktónskáldið og organistann Dieterich Buxtehude. 

Óratoría Buxtehude frá árinu 1680 er sett saman af sjö kantötum sem allar lúta á einn eða annan hátt að þjáningu Krists á krossinum en texti hverrar og einnar hverfist um einn líkamshluta Krists; fætur, hné, hendur, síðu, bringu, hjarta og andlit. Hnén (genua), tákn auðmýktar, styrks og tilbeiðslu eru viðfangsefni kantötu númer 2 sem kom í hlut Önnu Þorvaldsdóttur að semja út frá og í samstarfi við Guðrúnu Evu Mínervudóttur, sem samdi texta verksins. 

Ad Genua er samið fyrir sópransöngkonu, kammerkór og strengjakvintett; á tónleikum kvöldsins leikur heil strengjasveit. Verk fullt af áhrifamiklum andstæðum líkt og svo oft í hljóðheimi Önnu þar sem togast á ólíkar kenndir en sjálf hefur Anna sagt að þrá eftir fegurð á tímum sársauka og þjáningar sé ein af kveikjum verksins. Einmana og björt einsöngsrödd yfir þykkum og stundum ógnvekjandi hljómaklösum, löturhægar og leitandi hendingar undir kvikum og skoppandi bogahreyfingum. Bjartur sópran, djúpar karlaraddir, dramatískur þungi sem vex sífellt samhliða auðmjúku og íhugulu ákalli um fyrirgefningu, einingu og að lokum tilbeiðslu hinnar eilífu tónlistar sem lifir með okkur í hljóðlátu og undursamlegu niðurlagi verksins.

Ad Genua hefur einu sinni áður verið flutt af Sinfóniuhljómsveit Íslands á hátíðarviðburði sem fram fór 1. desember 2018 í Eldborg í tilefni af hundrað ára fullveldisafmæli á Íslandi. Jóna G. Kolbrúnardóttir söng einsöng og Schola Cantorum fór með kórhlutverkið. Verkið var frumflutt af kammerkórnum The Crossing og International Contemporary Ensemble undir stjórn Donald Nally sumarið 2016, fyrst í Biskupakirkjunni í Philadelphia í Pensylvaníu-ríki og stuttu síðar á tónlistarhátíðinni Mostly Mozart í Lincoln Centre í New York.