EN

Tónlistarveisla með Barböru Hannigan

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
5. jún. 2025 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 9.800 kr.
Kaupa miða
 • Efnisskrá

  Aaron Copland Music for the Theatre
  Joseph Haydn Sinfónía nr. 90
  Jacques Offenbach Kaflar úr La Gaité Parisienne (úts.Rosenthal)
  Kurt Weill Youkali (úts. Bill Elliot)
  Kurt Weill Lost in the stars (úts. Bill Elliot)

 • Hljómsveitarstjóri

  Barbara Hannigan

Kanadíska söngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan er einstakur listamaður sem starfað hefur með öllum helstu sinfóníuhljómsveitum og óperuhúsum heims og hefur frumflutt yfir 90 ný verk. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir list sína, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018 og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2020. Hannigan hefur þrisvar sinnum áður komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og í öll skipti hlotið mikið lof gagnrýnenda og áheyrenda.

Á þessum tónleikum býður Hannigan áheyrendum upp á efnisskrá þar sem gleði og húmor eru við stjórnvölinn. Tónleikarnir hefjast á Music for the Theatre eftir Aaron Copland þar sem jazzinn og lífskraftur millistríðsáranna leika lykilhlutverk. Joseph Haydn var einstaklega mikill húmoristi og hafði gaman af því að koma áheyrendum sínum á óvart. Óvíða fær skopskyn hans að njóta sín jafnvel og í Sinfóníu nr. 90. Þá leikur sveitin kafla úr ballettinum La Gaité Parisienne (Parísarfjör) eftir Jacques Offenbach og tónleikunum lýkur á tveimur ómótstæðilegum sönglögum Kurts Weill í flutningi Barböru Hannigan.

Barbara Hannigan kom fyrst fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á opnunartónleikum Listahátíðar árið 2022 þar sem hún sló heldur betur í gegn. Á tónleikum ári síðar hlaut Hannigan frábærar viðtökur og komst gagnrýnandi Fréttablaðsins svo að orði: „Hannigan söng og stjórnaði og dansaði og gerði það allt af yfirburðum. Söngurinn var fullur af krafti og ástríðu, en samt var röddin tær og fullkomlega mótuð. Hljómsveitin spilaði af gríðarlegu fjöri... Lokahnykkurinn var svo yfirgengilegur að áheyrendur spruttu á fætur og öskruðu.“ Tónleikar hennar í Reykjavík og á Akureyri með Himnasælusinfóníu Mahlers vorið 2023 vöktu sömuleiðis sterk, jákvæð viðbrögð, en hún kom síðast fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í apríl 2024, þar sem flutningur hennar á Mannsröddinni eftir Francis Poulenc þótti bera vott um gríðarlegt listfengi og fágun — og henni „var fagnað sem poppstjörnu“ (Mbl). Samstarf Hannigan og Sinfóníuhljómsveitar Íslands er þó aðeins rétt að hefjast en nýlega var tilkynnt að hún yrði næsti aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar. Tekur hún við því kefli haustið 2026.

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.