EN

John Adams: Scheherazade.2

John Adams (f. 1947) er eitt helsta núlifandi tónskáld Bandaríkjanna. Hann fæddist í Massachusetts og lærði við Harvard-háskóla, en hefur um árabil verið búsettur í Los Angeles og á að baki farsælt samstarf við fílharmóníuhljómsveit borgarinnar. Adams var á fyrri hluta ferils síns í fararbroddi þeirra tónskálda sem kenna sig við naumhyggju, en undanfarna áratugi hefur hann fetað braut sem kannski má kalla „síð-naumhyggju“ (post-minimalism) enda eru verk hans fjölbreytt hvað stíl og inntak varðar. Adams hefur samið ótal hljómsveitarverk og óperur, meðal annars Nixon in China (1987), The Death of Klinghoffer (1991) og Doctor Atomic (2005) sem allar sækja yrkisefni sín í samtímann og hafa jafnvel vakið harðar deilur. Verkið sem hér hljómar, Scheherazade.2, markar á sinn hátt tímamót á ferli Adams því það er umtalsvert ómstríðara en flest það sem hann hefur áður látið frá sér fara.

Adams kallar Scheherazade.2 „dramatíska sinfóníu fyrir fiðlu og hljómsveit“. Leila Josefowicz og Fílharmóníuhljómsveitin í New York frumflutti verkið í mars 2016 og hljóðritun hennar var tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrr á þessu ári. Adams segist hafa fengið innblástur að verkinu þegar hann heimsótti sýningu í París um sögu sagnasafnsins vinsæla Þúsund og ein nótt, sem á 19. öld varð öðru tónskáldi, Nikolai Rimskíj-Korsakov, efniviður í hljómsveitarverkið Scheherazade þar sem fiðla er einnig í forgrunni. Það verk leggur út af sögunni um soldáninn Shakriar sem þykist viss um að konur séu allar svikular. Því strengir hann þess heit að festa sér nýja brúði hvern dag og taka hana svo af lífi að morgni. En Sheherazade bjargar lífi sínu með því að segja manni sínum ævintýralegar sögur í þúsund og eina nótt; að lokum lætur hann af ásetningi sínum og gefur konu sinni grið.

Að sögn kom það Adams í opna skjöldu hversu áberandi leiðarstef í Þúsund og einni nótt er grimmd og ofbeldi gegn konum. Þetta varð honum tilefni til að hugleiða kúgun kvenna í samtíma okkar í dag. Adams segir sjálfur: „Í gömlu sögninni er Scheherazade lánsöm, því að henni tekst með miklu hugviti að bjarga lífi sínu. Í sjálfu sér er þetta þó vart fagnaðarefni þegar haft er í huga að henni er þyrmt aðeins vegna þess að henni tekst stöðugt að spinna nýjar sögur til að skemmta morðóðum manni sínum.“

Með þetta í huga hóf Adams að smíða verk þar sem einleiksfiðla fengi hlutverk Scheherazade og þar sem hlustandinn fylgdist með glímu hennar og tilveru í karlaveldi. „Ég tók að velta fyrir mér hvernig Scheherazade myndi birtast okkur í samtímanum. Nokkrar sterkar konur komu upp í hugann, til dæmis ungi íranski háskólaneminn Neda Agha Soltan, sem var skotin til bana á friðsamlegum mótmælafundi í Teheran árið 2009. Eða konur sem ráðist er á og jafnvel teknar af lífi af trúarofstæksmönnum í ótal löndum: Indlandi, Pakistan, Afganistan – hvar sem er á jarðarkringlunni, jafnvel í Bandaríkjunum.“

Scheherazade.2 er í fjórum þáttum. Verkið hefur ekki eiginlegan söguþráð en Adams bregður hér upp nokkrum myndum. Í fyrsta þætti birtist okkur fögur og kraftmikil kona sem flýr ofríki ofsatrúarmanna, en annar kafli er ástarsena, bæði blíð og ofbeldisfull. Þá kemur þáttur þar sem Adams ímyndar sér skeggjaða trúarofstækismenn rétta yfir Scheherazade og öskra á hana, en hún hleypur á flótta. Loks tekst henni að finna griðastað, nokkuð sem „ hlýtur að vera takmark hverrar konu sem er kúguð af karlmanni eða -mönnum,“ segir Adams. Hann kallar verkið „dramatíska sinfóníu“, yfirskrift sem hann fær að láni hjá Hector Berlioz. Tónlistin hefur á köflum austrænt yfirbragð, ekki síst þegar leikið er á cimbalom, en rulla þess í verkinu er fremur viðamikil.

John Adams samdi verk sitt sérstaklega fyrir Leilu Josefowicz, en þau hafa átt farsælt samstarf um áratuga skeið. Tónskáldið segir að Leila sé „fullkominn holdgervingur þess krafts og þeirrar orku sem ég ímynda mér að Scheherazade myndi hafa á okkar dögum“.