EN
  • Richard_wagner-original4

Richard Wagner: Forspil og Liebestod

Richard Wagner (1813–1883) var á hátindi ferils síns þegar hann samdi Tristan og Ísold; hafði þá þegar samið Lohengrin og Tannhäuser og var langt kominn með smíði Niflungahringsins. Sögnin um Tristan og Ísold er talin keltnesk og birstist fyrst í ritum frá 12. öld: Tristan hefur verið falið að sigla með írsku prinsessuna Ísold frá heimahögum til Cornwall, þar sem hún á að eiga frænda hans, Marke konung. Ísold vill fremur deyja en vera gefin óvini sínum, en í stað banvæns eiturs bergja báðar söguhetjurnar á ástardrykk og þar með eru örlög þeirra ráðin. Þegar komið er í höfn er Tristan særður banvænu sári og heldur heim á leið til að mæta dauðanum. Hann lætur lífið í örmum Ísoldar, sem hnígur að lokum niður við hlið hans og sameinast honum í eilífri sælu handan þessa heims. 

Wagner hóf að semja verkið snemma árs 1857, um það leyti sem hann vann að þriðju óperu Niflungahringsins – Siegfried, eða Sigurði Fáfnisbana. Smám saman leituðu á hann hugmyndir um óperu byggða á sögninni um Tristan, og svo fór að hann lagði Niflungahringinn á hilluna um skeið til að semja nýju óperuna. Í höndum Wagners verður söguþráðurinn áhrifamikið sálfræðidrama, en bein atburðarás í hefðbundnum skilningi er fremur lítil. 

Upphafstaktar óperunnar brutu blað í tónlistarsögunni. Alla 19. öldina hafði sígild tónlist orðið sífellt krómatískari og flóknari í allri hugsun og útfærslu; samtímamenn Wagners þóttust sjá í Tristan og Ísold framhald þróunar sem hófst með síðustu strengjakvartettum Beethovens. Aldrei fyrr hafði hið hefðbundna tóntegundakerfi verið teygt svo langt í allar áttir: ómstríðir tónar leysast ekki, bæði í laglínum og hljómum er boginn spenntur hærra með aukinni krómatík. „Tristan-hljómurinn“ sem heyrist í upphafi forspilsins varð tákn nýrra tíma; nú hafði opnast ný vídd í litrófi hljómfræðinnar og þar með var brautin rudd fyrir frekari nýjungar. 

Í lokaþætti óperunnar stendur Ísold við dánarbeð elskhuga síns og gefur sig dauðanum á vald; Liebestod eða Ástardauði Ísoldar er einn frægasti kaflinn á allri verkaskrá tónskáldsins. Wagner átti sjálfur hugmyndina að því að tengja forspil og uppljómun Ísoldar á þennan hátt, og þótt vissulega sé nokkur eftirsjá að sópranröddinni má segja að áferðin í hljómsveitarleiknum sé svo þykk og glæsileg að hún standi fyllilega fyrir sínu. Meðal aðdáenda lokakaflans var sjálfur Richard Strauss, sem sjálfur kunni listina að útsetja fyrir hljómsveit betur en flest tónskáld fyrr og síðar. Hann komst svo að orði að geislandi H-dúr-hljómurinn í lok Ástardauðans væri „best útsetti lokahljómur í gervallri tónlistarsögunni“.