EN

Páll Óskar Hjálmtýsson

Söngvari

Páll Óskar Hjálmtýsson er sjálfmenntaður söngvari og hefur unnið sem slíkur frá barnsaldri. Hann hefur verið áberandi sem ein skærasta poppstjarna Íslands og eftir hann liggja fjölmargar upptökur á hljómplötum, sólóplötur og samstarfsverkefni með öðrum tónlistarmönnum. Páll Óskar er einn af fáum íslenskum tónlistarmönnum sem er jafnvígur á stuðtónlist og ballöður, enda er leitun að öðrum tónlistarmanni sem höfðar til jafn breiðs hóps hlustenda. Plötur hans hafa selst í bílförmum og troðfullt er á tónleika hans og dansleiki. 

Páll Óskar hefur fjórum sinnum áður sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann tók þátt í „Söngbók Gunnars Þórðarsonar“ í júní 2009, og var í hlutverki sögumanns í Snjókarlinum á jólatónleikum Sinfó í desember sama ár. Árið 2010 kom Páll Óskar fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fernum tónleikum í Háskólabíói þar sem hann söng sín vinsælustu lög og var leikurinn endurtekinn á fimm tónleikum í Hörpu 2011 og seldist upp á alla tónleikana eins og árinu áður. Síðast kom Páll Óskar fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í beinni útsendingu á sjónvarpstónleikum hljómsveitarinnar á RÚV.