EN

Gustav Mahler: Sinfónía nr. 2

Upprisusinfónían

Gustav Mahler var 28 ára gamall þegar hann þreytti frumraun sína sem sinfónískt tónskáld árið 1888, með sinfóníu í D-dúr. Hann hafði um tveggja ára skeið gegnt stöðu aðstoðarstjórnanda við Borgarleikhúsið í Leipzig, og þar kynntist hann Karli barón von Weber, sem var barnabarn tónskáldsins Carl Maria von Weber. Baróninn hafði erft skissur afa síns að óperunni Die drei Pintos, sem Weber entist ekki aldur til að ljúka við. Mahler fullgerði þriðja þátt verksins, og óperan var frumflutt undir hans stjórn við afbragðs undirtektir í janúar 1888. 

Að sýningunni lokinni voru Mahler afhentir ótal blómvendir sem sómdu sér vel í íbúð hans næstu vikurnar. Í spennufallinu eftir flutninginn ímyndaði Mahler sér að hann væri látinn, og að hann lægi í líkkistu sinni umkringdur blómum. Brátt fór nýtt tónaljóð, Todtenfeier, að taka á sig mynd. „Það er hetja D-dúr sinfóníu minnar sem hér er lögð til grafar, og líf hans endurspeglast í tónlistinni.“ Þegar Mahler hafði bætt fjórum þáttum aftan við Todtenfeier svo úr varð Sinfónía nr. 2, lagði hann enn áherslu á að fyrsti kaflinn væri hugleiðing um lífið og tilgang þess. „Spurt er: „Til hvers lifðir þú? Er lífið eitthvað meira en stór og ógnvænlegur brandari?“ Við verðum að leita svara við þessum spurningum á einhvern hátt ef við ætlum að halda áfram að lifa – og jafnvel þótt við ætlum okkur að deyja!“ 

Dramatískara upphaf á sinfóníu er varla hægt að hugsa sér. Allan kaflann í gegn skiptast á hinar ýmsu skapgerðir: reiðilegar hendingar í sellóum og kontrabössum, brot úr sigurvissu sálmalagi sem vísar til þess sem gerist í lokaþætti sinfóníunnar, gregorska lagið við Dies irae, þrumandi ómstríðir hljómar, og – inn á milli – vongóður fiðluskali sem aldrei tekst að brjóta jarðarfararstemninguna á bak aftur. Í lokatöktunum virðist loks rofa til, þegar moll-hljómarnir víkja fyrir C-dúr. En eftir þrumandi niðurlagið – með tveggja áttunda krómatískum fallandi skala – þarf enginn að velkjast í vafa um að hér hefur dauðinn borið sigur úr býtum. 

Annað er uppi á teningnum í síðari hlutum verksins, enda má líta á sinfóníuna sem 80 mínútna ferðalag frá kirfilega negldu líkkistuloki upphafskaflans til hrífandi himnasælu lokataktanna. Þó var Mahler lengi í vafa um hvort Todtenfeier-kaflinn ætti að standa einn og sér, eða hvort hann myndi henta betur sem upphaf að stærra verki. Það var ekki fyrr en 1893 sem hann bætti við tveimur köflum, og ári síðar var fimm þátta sinfónían fullgerð. Annar kaflinn er ljúfur sveitadans af því tagi sem Austurríkismenn kalla ländler; Mahler kallaði þennan og aðra svipaða þætti „rúsínurnar“ í sinfóníum sínum. Að áliti margra eru þetta auðmeltustu og ánægjulegustu kaflarnir, en ekki hafa allir verið á sama máli. Þegar sinfónían var leikin í París árið 1910 gengu bæði Claude Debussy og Paul Dukas á dyr; þeim þótti tónlistin of gamaldags, bera fullmikinn keim af Schubert.

Í fyrstu fimm sinfóníum sínum leitaði Mahler margsinnis fanga í Des Knaben Wunderhorn, safn þýskra þjóðkvæða sem var gefið út snemma á 19. öld og naut mikilla vinsælda. Þriðji þáttur sinfóníunnar er sinfónísk útgáfa af sönglagi Mahlers, Des Antonius von Padua Fischpredigt, eða Fiskiræðu Antoníusar frá Padova. Textinn er kaldhæðinn í meira lagi; þegar guðsmaðurinn kemur að tómri kirkju heldur hann rakleitt að ströndinni og messar yfir fiskunum. Áhrifin eru ekki þau sem hann hafði vonast til; að predikun lokinni synda þeir í burtu og halda áfram uppteknum hætti – rétt eins og mannfólkið, að því er virðist. Mahler sagðist sjálfur hafa skemmt sér konunglega við tónsmíðarnar en bætti við: „Líklega munu fáir skilja háð mitt um mannkynið.“

Texti fjórða þáttar, Urlicht, er einnig fenginn úr Wunderhorn-safninu. Hér er slegið á alvarlegri strengi og í raun liggur vendipunktur verksins einmitt hér; einlægar hendingar altsöngkonunnar eru í fullkomnu jafnvægi við nærgætinn hljómsveitarleikinn. Upphaf lokaþáttarins er eins og angistaróp og friðurinn virðist úti um stund. Hér ber ýmislegt fyrir eyru: lúðraþytur í fjarska – sem tónskáldið kallaði „hrópið í eyðimörkinni“ –, dauðastefið Dies irae, annað stef sem síðar verður sjálfur upprisusálmurinn, gríðarleg slagverksuppbygging sem Mahler kallaði „mars hinna dauðu“. Hápunkturinn er einhver áhrifamesta stundin í öllum sinfóníum tónskáldsins; Mahler kallaði hann „Der grosse Appell“ eða Hinsta ákallið. Horn, trompetar og pákur skiptast í hópa baksviðs og kallast á við fuglasöng flautunnar, eins og hér bíði allt sköpunarverk Guðs í spennuþrunginni þögn eftir óumflýjanlegu uppgjöri. Lokakórinn byrjar undurveikt, en hápunktarnir eru ekkert minna en stórfenglegir. Þar taka kór, einsöngvarar og hljómsveit öll undir og lofsyngja þá himnesku dýrð sem bíður okkar á hinsta degi.