Stuart Skelton
Einsöngvari
Ástralinn Stuart Skelton er áheyrendum hérlendis að góðu kunnur, allt frá því að hann fór með titilhlutverkið í tónleikauppfærslu óperunnar Peter Grimes eftir Benjamin Britten á Listahátíð í Reykjavík 2015 í samvinnu Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sex árum síðar, í miðjum heimsfaraldri, kom hann aftur fram með hljómsveitinni er hann söng Wesendonck-ljóðin eftir Richard Wagner en þau samdi tónskáldið einmitt meðan hann vann að óperunni Tristan og Ísold.
Skelton er meðal eftirsóttustu hetjutenóra samtímans og hefur sungið við mörg helstu óperuhús heims. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar í heimalandi sínu og í Bretlandi og var kjörinn karlsöngvari ársins 2014 á International Opera Awards. Tveimur árum síðar fór hann með hlutverk Tristans í fyrsta sinn, á tónlistarhátíðinni í Baden-Baden, og sama haust opnuðu þau Nina Stemme leikárið á Metropolitan-óperunni í New York sem Tristan og Ísold undir stjórn Simons Rattle. Á næsta leikári á eftir þreytti Skelton frumraun sína á La Scala í Mílanó og árið 2018 kom hann í fyrsta sinn fram í Covent Garden í Lundúnum þar sem hann söng hlutverk Siegmunds í Valkyrjunni undir stjórn Anthony Pappano. Í vetur mun Skelton syngja Tristan bæði í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu.
