EN

Stuart Skelton

Einsöngvari

Stuart Skelton hefur komið fram í mörgum af helstu óperuhúsum heims, þar á meðal Metropolitan-óperunni í New York, óperuhúsunum í Seattle og San Francisco, Ensku þjóðaróperunni (ENO), Parísaróperunni, Ríkisóperunni í Berlín, Deutsche Oper í Berlín og Vínaróperunni. Meðal hlutverka hans má nefna titilhlutverkin í Lohengrin, Parsifal og Peter Grimes auk Florestan í Fidelio, Erik í Hollendingnum fljúgandi, Bakkus í Ariadne á Naxos, Max í Der Freischütz, Canio í Pagliacci og Siegmund í Niflungahringnum. Hann hefur tekið þátt í flutningi á Das Lied von der Erde eftir Mahler, Níundu sinfóníu Beethovens og sálumessum eftir Verdi og Dvořák. 

Skelton hefur komið fram með sinfóníuhljómsveitunum í Atlanta, Boston, Chicago, Cleveland, San Francisco og Montreal, með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveit Lundúnaborgar og sinfóníuhljómsveitunum í Sydney og Melbourne. Hann hefur komið fram á tónlistarhátíðunum í Edinborg og Luzern og á BBC Proms og unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Vladimir Ashkenazy, Daniel Barenboim, Jiri Bèlohlavek, Christoph von Dohnányi, Christoph Eschenbach, Mariss Jansons, James Levine, Lorin Maazel og Sir Simon Rattle. 

Skelton söng hlutverk Peter Grimes í samnefndri óperu Benjamins Britten í uppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar á Listahátíð í Reykjavík 2015 og var uppfærslan valin tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.