EN

LA / Reykjavík

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
5. okt. 2017 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.500 kr.
Tónleikakynning » 5. okt. kl. 18:00

John Adams er eitt helsta tónskáld Bandaríkjanna og nýr fiðlukonsert hans hefur vakið mikla hrifningu. Verkið, sem er samið sérstaklega fyrir Leilu Josefowicz, er byggt á Þúsund og einni nótt. Adams kveðst sérstaklega hafa leitt hugann að bágri stöðu kvenna í heimi sagnanna, ekki síst hinni hrífandi Scheherazade sem bjargar eigin lífi með því að segja sögur. New York Times skrifaði um frumflutninginn að leikur Josefowicz hafi verið „glæsilegur og innblásinn“ og hljóðritun hennar af verkinu var tilnefnd til Grammy-verðlauna 2016.

Á tónleikunum hljómar einnig Sálmasinfónía Stravinskíjs sem margir telja eitt helsta verk 20. aldar fyrir kór og hljómsveit. Verkið samdi hann fyrir Sinfóníuhljómsveitina í Boston árið 1930 og fáeinum árum síðar var hann sjálfur sestur að í Hollywood. Tær og bjartur tónn Hamrahlíðarkóranna hentar verkinu fullkomlega enda verkið samið fyrir ungar raddir. 

Haustið 2017 eru liðin 50 ár frá því að fyrst var boðað til kóræfingar við Menntaskólann við Hamrahlíð undir leiðsögn Þorgerðar Ingólfsdóttur, en farsælt samstarf Sinfóníuhljómsveitarinnar og Hamrahlíðarkóranna spannar áratugi. 

Á vordögum 2017 hélt Fílharmóníuhljómsveitin í Los Angeles umfangsmikla hátíð þar sem íslensk tónlist og íslenskir flytjendur voru í forgrunni. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar ásamt Esa-Pekka Salonen var Daníel Bjarnason, staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sinfóníuhljómsveit Íslands lætur ekki sitt eftir liggja heldur blæs til tveggja vikna hátíðar, dagana 3. - 12. október, þar sem tónlist frá Los Angeles skipar veglegan sess.

Sækja tónleikaskrá