EN

Leila Josefowicz

Fiðluleikari

Kanadíski fiðluleikarinn Leila Josefowicz hefur vakið heimsathygli fyrir glæsilegan leik sinn og ekki síst fyrir flutning sinn á nýrri tónlist. Hún ólst upp í Los Angeles og hóf fiðlunám sitt þar, en þegar hún var 13 ára gömul fluttist fjölskyldan til Philadelphiu svo hún gæti gengið í hinn fræga Curtis-tónlistarháskóla. Josefowicz hefur starfað með fremstu tónskáldum heims og árið 2008 hlaut hún hin virtu MacArthur-verðlaun fyrir framlag sitt til menningar á heimsvísu.

Josefowicz hefur komið fram með öllum helstu hljómsveitum heims og haldið einleikstónleika í helstu tónleikahúsum. Meðal þeirra hljómsveita sem hún hefur starfað með nýverið má nefna Sinfóníuhljómsveitirnar í Lundúnum, Chicago, Baltimore og Melbourne. Meðal tónskálda sem hafa tileinkað henni verk sín má nefna John Adams, Esa-Pekka Salonen, Colin Matthews og Stephen Mackey.

Leila Josefowicz hefur hljóðritað fyrir Deutsche Grammophon, Philips og Warner Classics, og fyrir fáeinum árum var hljóðritun hennar af fiðlukonserti Esa-Pekka Salonen tilnefnd til Grammy-verðlauna. Josefowicz hefur tvívegis áður leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Haustið 2004 lék hún fiðlukonsert eftir John Adams og vorið 2009 lék hún fiðlukonsert Beethovens.