EN

Leila Josefowicz

Fiðluleikari

Kanadíski fiðluleikarinn Leila Josefowicz nýtur virðingar sem einn helsti fiðluvirtúós samtímans. Hún hefur lagt mikla rækt við nútímatónlist og hefur á því sviði starfað með helstu tónskáldum, hljómsveitum og hljómsveitarstjórum víða um heim. Meðal tónskálda sem samið hafa sérstaklega fyrir hana eru John Adams, Esa-Pekka Salonen, Colin Matthews og Steven Mackey. Scheherasade.2 (dramatísk sinfónía fyrir fiðlu og hljómsveit) eftir John Adams var frumflutt af henni og Fílharmóníuhljómsveitinni í New York árið 2015 og þá frumflutti hún einnig Duende - The Dark Notes eftir Luca Francesconi árið 2014 en verkið hljómaði einnig í túlkun hennar á BBC-Proms árið eftir.

Leila Josefowicz leikur reglulega með þekktustu hljómsveitum heimsbyggðarinnar. Má þar nefna Fílharmóníuhljómsveitirnar í Berlín, Helsinki og Los Angeles, Tonhalle-hljómsveitina í Zürich og sinfóníuhljómsveitir breska útvarpsins BBC. Þá lék hún Scheherasade.2 eftir John Adams með Lundúnarsinfóníunni í London, París og Dijon í Frakklandi í lok síðasta árs.

Leila Josefowicz hefur starfað með píanóleikaranum John Novacek síðan 1985 og ferðast þau árlega víða um heiminn. Á þessu starfsári eru viðkomustaðir þeirra utan Reykjavíkur meðal annars Leeds, Chicago, San Francisco og Halifax í Nova Scotia að ógleymdum stöðum á borð við Zankel Hall í  New York og Wigmore Hall í London.

Josefowicz hefur leikið inn á fjölda hljómdiska m.a. fyrir Deutsche Grammophon, Philips/Universal og Warner Classics. Nýjasta hljóðritun hennar, þar sem hún lék fyrrnefnt verk Adams Scheherasade.2 með Sinfóníuhljómsveitinni í St. Louis, kom út í fyrra og var tilnefnd til Grammy-verðlauna. Það sama gildir um upptöku hennar á fiðlukonserti Esa-Pekka Salonen sem hún lék með Finnsku útvarpshljómsveitinni undir stjórn höfundar árið 2014.