Dmítríj Shostakovitsj: Sinfónía nr. 10
Sovéska tónskáldið Dímítríj Shostakovitsj (1906–1975) samdi fimmtán sinfóníur á árunum 1925 til 1971 og eru þær merkur vitnisburður um hina viðsjárverðu tíma sem tónskáldið lifði á. Margir hlustendur heyra í verkum Shostakovitsj trúverðuga lýsingu á hörmungum Stalínstímans, hvort heldur er í manískum scherzóum eða hægum og trega- fullum hendingum. Andófsmaðurinn Shostakovitsj hlaut þó ekki uppreisn æru fyrr en eftir lát sitt. Þótt Shostakovitsj væri stundum óstýrilátur gerði hann líka það sem af honum var krafist, samdi kantötur og aðra lofsöngva til kommúnista- flokksins og ættjarðarinnar, og því gátu stjórnvöld hampað honum sem dyggum stuðningsmanni þegar svo bar undir.
Það var ekki fyrr en með bókinni Testimony – sem sögð er vera endurminningabók Shostakovitsj, rituð skömmu eftir lát hans af landflótta sovéskum tónlistarfræðingi, Solomon Volkov að nafni – að ímynd tónskáldsins tók að breytast. Ýmsum spurningum er enn ósvarað varðandi tilurð bókarinnar en þó eru flestir þeir sem þekktu Shostakovitsj á einu máli um að hún bregði upp trúverðugri mynd af skoðunum hans og aðstæðum. Tónlist er í eðli sínu margræð og erfitt að ákvarða merkingu hennar í eitt skipti fyrir öll. Þetta varð Shostakovitsj vafalaust til lífs. Þó að tónlist hans sé að mörgu leyti hefðbundin má heyra í henni andóf af því tagi sem listamönnum í öðrum greinum hefði varla liðist undir ógnarstjórn Jósefs Stalín.
Þegar Stalín lést, hinn 5. mars 1953, bjuggust margir við því að nú myndi Shostakovitsj, sem í nærri tvo áratugi hafði mátt þola kúgun og niðurlægingu af hálfu sovéskra stjórnvalda, loks láta allt flakka. Enn kom Shostakovitsj hlustendum sínum á óvart. Tíunda sinfónía hans, samin síðar sama ár, er sérkennilegt meistaraverk, á köflum innhverf og hæglát en annars staðar brýst fram kaldhæðni og jafnvel heift sem er aðdáendum tónskáldsins vel kunn. Yfirmenn tónlistarmála voru síður en svo ánægðir með þessa nýsmíði og skömmu eftir frumflutninginn efndi Tónskáldafélag Sovétríkjanna til málþings um hina tormeltu sinfóníu. Þar tók Shostakovitsj fyrstur til máls og baðst hreinlega „afsökunar“ á verkinu; hann kvaðst hafa samið sinfóníuna í of miklum flýti, sagði að fyrsti kaflinn væri ófullnægjandi, að annar þáttur væri of stuttur og þar fram eftir götunum. Andstæðingar Shostakovitsj héldu því fram að sinfónían væri í engum tengslum við „hina bjartsýnu framtíð sovéskrar alþýðu“.
Sé endurminningabókin Testimony tekin trúanleg var stirt samband tónskálds og einræðisherra kveikjan að verkinu. „Tíunda sinfónían er um Stalín. Ég samdi hana skömmu eftir að Stalín lést, en fram til þessa hefur enginn getið sér þess til að þetta sé yrkisefni mitt. Sinfónían er um Stalín og Stalínstímann. Annar kaflinn, scherzóið, er að vissu leyti mynd af Stalín í tónum,“ hefur Volkov eftir tónskáldinu. Ef mótífið DSCH (sjá að neðan) á að tákna tónskáldið sjálft, þá er engu líkara en að í verkinu eigist við tvö öfl: Stalín og Shostakovitsj. Sá síðarnefndi ber sigur úr býtum eins og ljóst er af lokatöktunum, þar sem nafn tónskáldsins dynur í pákunum.
Fyrsti þáttur er dökkur og íhugull. Strengir hefja leik en í hápunktunum bætist öll hljómsveitin við með sívaxandi þunga í hvert sinn. Þegar allt er um garð gengið hljómar upphafsstefið enn á ný. Shostakovitsj hafði líflegt ímyndunarafl þegar kom að nýstárlegum samsetningum hljóðfæra eins og þessir taktar sýna glöggt: dúett fyrir tvær pikkolóflautur við dulúðugan pákuslátt. Annar kafli sinfóníunnar – „myndin af Stalín“ – er hratt og ofsafengið scherzó. Tónlistin þýtur hjá, ýmist svimandi hröð eða í hnífbeittum marséringarhryn. Þriðji þáttur er einnig hraður en á lágstemmdari nótum; hægur fyrsti þátturinn nægir fyrir verkið allt. Ákveðnum vendipunkti er náð þegar flautur leika stef sem er undirskrift tónskáldsins í tónum: DSCH. Samkvæmt þýskri hefð er eftirnafnið Шостако́ вич ritað „Schostakowitsch“ og með því að bæta við fornafninu Dmitri má búa til fjögurra tóna stef: D-Es-C-H. Shostakovitsj hafði áður notað þetta mótíf í píanósónötu sinni nr. 2 og fiðlukonserti nr. 1, og það skýtur jafnframt upp kollinum í mörgum seinni verka hans.
Nafn tónskáldsins er ekki hið eina sem hljómar í þriðja kafla 10. sinfóníunnar. Um miðbik þáttarins leikur einleikshorn stef sem samanstendur af tónunum E-A-E-D-A, alls tólf sinnum við ólíkan undirleik. Ef notuð eru nótnaheiti úr „solfège“-kerfinu fyrir miðnóturnar þrjár er útkoman E-la-mi-re-A, eða Elmíra. Elmíra Naziróva var píanóleikari og sótti nokkra tónsmíðatíma hjá Shostakovitsj árið 1947. Sex árum síðar skiptust þau á innilegum bréfum og virðist tónskáldið hafa átt frumkvæðið að þeim. Þegar Naziróva var spurð út í vináttu þeirra síðar á ævinni sagðist hún ekki hafa verið annað en skáldgyðja tónskáldsins við gerð tíundu sinfóníunnar, og þegar verkið hafi verið fullgert hafi bréfasamband þeirra runnið hratt út í sandinn.
Lokaþátturinn hefst á hægum inngangi. Fyrr en varir er nýtt stef í burðarliðnum og þegar það sprettur fram fullmótað ríkja gleði og léttleiki um hríð. Þó er ekki öll sagan sögð. Dramatískir hápunktar eru aðalsmerki Shostakovitsj og þá skortir ekki hér. Lokataktarnir, þar sem DSCH-stefið hljómar í síðasta sinn, eru sérlega áhrifaríkir; hér er eins og Shostakovitsj hneigi sig fyrir áheyrendum sínum um leið og hann hrósar sigri yfir sínum forna fjanda í eitt skipti fyrir öll.