Bryndís Guðjónsdóttir
Einsöngvari
Bryndís Guðjónsdóttir lauk meistaragráðu í óperusöng með láði árið 2021 frá Universität Mozarteum í Salzburg í Austurríki en áður hafði hún lokið bakkalárgráðu með láði frá Universität Mozarteum árið 2019. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna meðal anars á Íslandi, Ítalíu, Spáni og Tékklandi og komið fram á fjölum óperuhúsa og með sinfóníuhljómsveitum svo sem í Semperoper Dresden, Essen, Kiel, Kassel, Martina Franca, München, Salzburg, Stuttgart, Prag, Róm, Vilnius, Sevilla og Madrid.
Verkaskrá Bryndísar er breið og spannar margar aldir en á meðal ópera sem hún hefur sungið einsöng í eru Candide eftir Bernstein, Der Freischütz eftir Weber, Dido og Aeneas eftir Purcell, Gudrun eftir Mangold, Töfraflautan og La Clemenza di Tito eftir Mozart, Gli Uccellatori eftir Gassmann, Les Contes d'Hoffmann eftir Offenbach, Owen Wingrave eftir Britten, Die Frau ohne Schatten eftir R. Strauss og Rabbi Rafmagnsheili eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Á meðal hljómsveitarverka eru Stabat Mater eftir Pergolesi, Mattheusarpassía J. S. Bach, Requiem eftir Mozart, 9. sinfónía Beethovens, Carmina Burana eftir Carl Orff og Þjóðlög Berios.
Bryndís er reglulegur gestur Prague Royal Philharmonic undir stjórn Heiko Mathias Förster.
Á síðasta misseri hefur Bryndís komið fram sem Ännchen í Der Freischütz í Kiel, sem Fyrsta Dama í Töfraflautu Mozarts í Aalto Theater Essen, sem sólisti með Konunglegu Sinfóníuhljómsveitinni í Sevilla og í Isarphilharmonie, Gasteig í München með Prague Royal Philharmonic.
Bryndís hefur áður komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, árið 2023 á tónleikunum ARCHORA í Hallgrímskirkju þar sem hún söng Ad Genua eftir Önnu Thorvaldsdóttur og söng sama ár í Ævintýrinu um Töfraflautuna, á jólatónleikum í desember 2021og sem einn af sigurvegurum keppninnar Ungir einleikarar árið 2018.
Bryndís var styrkþegi Tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi, Söngmenntasjóðs Marínós Péturssonar, Halldórs Hansen, Ingjaldssjóðs, Richard Wagners námsstyrkins og Gianna Szel í Austurríki.