EN

Bryndís Guðjónsdóttir

Einsöngvari

Bryndís Guðjónsdóttir lauk meistaragráðu í óperusöng með láði árið 2021 frá Universität Mozarteum í Salzburg í Austurríki en áður hafði hún lokið bakkalárgráðu með láði frá Universität Mozarteum árið 2019. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna og komið fram á fjölum óperuhúsa og með sinfóníuhljómsveitum svo sem í Kiel, Kassel, Stuttgart, München, Salzburg, Prag, Róm, Vilnius, Sevilla og Madrid.

Verkaskrá Bryndísar er breið og spannar margar aldir en á meðal ópera sem hún hefur sungið einsöng í eru Dido og Aeneas eftir Purcell, Töfraflautan og Mildi Títusar eftir Mozart, Ævintýri Hoffmanns eftir Offenbach, Owen Wingrave eftir Britten, Birtingur eftir Bernstein og Rabbi rafmagnsheili eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Á meðal hljómsveitarverka eru Stabat Mater eftir Pergolesi, Mattheusarpassía J. S. Bach, 9. sinfónía Beethovens, Carmina Burmana eftir Carl Orff og Þjóðlög Berios.

Framundan hjá Bryndísi er einsöngur í Sálumessu Mozarts á Óperudögum í Hallgrímskirkju, áramótatónleikar í Sevilla, Carmina Burana með Konunglegu fílharmóníusveitinni í Prag og Töfraskyttan eftir Weber í Óperuhúsinu í Kiel. Bryndís hefur áður komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í Ævintýrinu um Töfraflautuna fyrr á þessu ári og á jólatónleikum í desember 2021.