EN

Anna Þorvaldsdóttir: ARCHORA

Hljómsveitarverkið ARCHORA var samið fyrir PROMS-tónlistarhátíð breska ríkisútvarpsins, BBC, þar sem það var frumflutt af Fílharmóníusveit BBC undir stjórn Evu Ollikainen sumarið 2022. Frumflutningur verksins hlaut fádæma góðar viðtökur, var valinn einn af hápunktum tónlistarársins af gagnrýnendum The Guardian og verkið hefur hljómað í flutningi fjölmargra hljómsveita síðan.

ARCHORA er samsett orð úr ranni Önnu sem vísar í hið forna (eða arkaíska) og í hliðstæða heima (chora, sem samkvæmt heimspeki Platons er óræður staður eða staðleysa) en kveikjur verksins eru meðal annars hugmyndir um upprunalegan frumkraft og alltumlykjandi hliðstæða veröld sem er í senn kunnugleg og framandi, kyrrstæð og síbreytileg, hvergi og alls staðar á sama tíma. Allt tengist en tengsl orsakar og afleiðingar eru hvorki auðsæ né fyrirsjáanleg, í mörgum hliðstæðum heimum verða til ólíkar afleiður og margs konar líf.

ARCHORA hefst með myrkum drunum sem tengja okkur við undirdjúp og alltumlykjandi alheimsorku. Kontrabassafagott og bassaklarinett, túbur og bassabásúna mynda ásamt djúpum strengjum stöðugan (og síkvikan) eilífðarsón og yfir honum taka að hljóma ómstríðir strengir, flautuandvörp og sláttur sem skapa óreiðu og hreyfingu. Hljóðheimurinn verður æ blæbrigðaríkari og óræðari, blástur, hvinur, hvellir og högg. Slátturinn ágerist, tónaklasarnir stríkka, spennan vex og leysist af og til upp í bjöguðu, hnígandi stefi sem gengur á milli ólíkra hljóðfærahópa og hljómar nánast eins og neyðaróp eða ákall, kunnuglegt og framandi á sama tíma. Þegar dregur nær miðbiki ARCHORA verður yfirbragðið sífellt óreiðukenndara, stríðara og þyngra þar til taktfastur sláttur og ákall í strengjum taka að hljóma á ný. Niðurlag ARCHORA er löturhægt og áhrifaríkt þar sem tíminn er þaninn til hins ýtrasta; víólur spila síendurtekið tónaandvarp á meðan bjartir og (síðar einungis) djúpir strengir sameinast í djúpum nið, allt um kring flögra hljóðfæri sem fjara smátt og smátt út, ofurhægt, og hverfa að lokum inn í eilífðina, hvergi og alls staðar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti ARCHORA á tónleikum í Eldborg haustið 2022 og þá án orgels enda er þáttur þess valfrjáls í verkinu; hér fær það að hljóma í allri sinni dýrð. Fyrr á þessu ári kom út platan ARCHORA / AION á vegum Sono Luminus þar sem Eva Ollikainen stjórnar flutningi SÍ á hljómsveitarverkum Önnu. Platan hefur fengið frábæra dóma í heimspressunni m.a. hjá BBC Music Magazine sem gaf disknum 5 stjörnur af 5 mögulegum.