EN

Richard Strauss: Ein Heldenleben

 

Nítjánda öldin var tími einstaklingsins. Listaverkið sjálft og egó listamannsins sem skapaði það urðu órjúfanleg heild, og sjálfsævisöguleg tónlist varð til í fyrsta sinn. Berlioz lýsti misheppnuðu ástarævintýri sínu í Symphonie fantastique, Smetana túlkaði heyrnarleysi sitt í strengjakvartett nr. 1, innra tilfinningalíf Schumanns speglaðist í ótal píanóverkum hans. Tónskáldið var bæði sögumaður og hetja; listsköpunin veitti útrás bæði fyrir innri tilfinningar og persónulegan metnað á sviði listarinnar. 

Richard Strauss (1864–1949) hóf feril sinn sem óperutónskáld, en ópera hans Guntram þótti ófullkomin og því sneri hann sér að hljómsveitarverkum í staðinn. Hann samdi ekki hefðbundnar sinfóníur eins og samtímamaður hans Gustav Mahler, heldur tónaljóð sem segja einhvers konar sögu: Don Juan (1888), Dauði og umbreyting (1889), Ævintýri Ugluspegils (1895), Svo mælti Zaraþústra (1896), Don Kíkóti (1897) og loks Hetjulíf (Ein Heldenleben, 1898). Að því loknu sneri Strauss sér aftur að óperum en samdi tvö stór hljómsveitarverk til viðbótar nokkru síðar, Heimilissinfóníuna (Sinfonia domestica) og Alpasinfóníuna

Söguhetjan í Hetjulífi er Richard Strauss sjálfur. Þegar hann samdi verkið var hann á hátindi ferils síns, 34 ára gamall og fullur sjálfstrausts, nýráðinn aðalstjórnandi við hirðóperuna í Berlín. Hugmyndir Nietzsches um ofurmennið voru honum auðvitað vel kunnar og hann hafði þegar sótt þangað innblástur við smíði Svo mælti Zaraþústra. Strauss á að hafa sagt, í gríni þó, að honum þætti hann sjálfur ekkert ómerkari persóna en Sesar eða Napóleon. 

Hetjan stígur fram á sjónarsviðið strax í fyrsta takti. Hún er hástemmd og ástríðufull, og tóntegundin er Es-dúr. Það er síður en svo tilviljun. Strauss vísar hér í Eroica-sinfóníu Beethovens – Hetjuhljómkviðuna – bæði hvað varðar tóntegund og tónbyggingu stefsins. Eftir glæsilegan inngangskafla beinir Strauss sjónum sínum annað. Blásarar leika sérkennilegar hendingar, ljótar, ósamtaka og stefnulausar. Þetta er lýsing Strauss á öfundarmönnum sínum og gagnrýnendum, og sjaldan hefur nokkurt tónskáld komið fram hefndum á jafn áhrifaríkan hátt. Til að fullkomna verknaðinn skrifar Strauss í nóturnar orð til leiðbeiningar flytjendunum á borð við „beitt“, „særandi“ og „önuglega“.

Því næst stígur einleiksfiðla fram í sviðsljósið og táknar hún Pauline, eiginkonu tónskáldsins/hetjunnar. „Hún er flókin manngerð“, sagði Strauss um konu sína, „très femme, dálítið þverúðug, daðurgjörn, aldrei söm við sig, heldur skiptir um ham frá einni mínútu til hinnar næstu“. Þegar einleiksfiðlan dregur sig í hlé tjáir hetjan henni ást sína, og hér hljómar einhver stórfenglegasta tónlist sem Strauss samdi um ævina. En óvinirnir leynast víða og hetjan býr sig undir bardaga. Trompetar blása til orrustu sem lýkur vitaskuld með afgerandi sigri hetjunnar. Hetjustefið snýr aftur, glæsilegra en nokkru sinni fyrr. 

Þá tekur við óvenjulegasti kafli verksins, Friðarverk hetjunnar. „Ég hef auðvitað aldrei tekið þátt í raunverulegum bardögum“, skrifaði Strauss til útgefanda síns hálfri öld síðar, „svo mér fannst framlag mitt til friðar helst geta verið mín eigin tónverk.“ Hér fléttar Strauss saman stef úr öllum helstu verkum sínum fram til Hetjulífs og áheyrendur sem þekkja til tónaljóða hans ættu að kannast við brot úr Don Juan, Ugluspegli og Zaraþústra, svo aðeins nokkur séu nefnd.

Enn minna óvinir á nærveru sína og hetjan bregst ókvæða við (wütend, skrifar Strauss í fiðluröddina, „æfur af reiði“). Smám saman róast hann og dregur sig í hlé frá skarkala heimsins. Upphaflega átti verkinu að ljúka ofurveikt. Þegar Strauss sýndi nóturnar gömlum skólabróður sínum brást sá ókvæða við: „Richard, ekki enn einn pianissimo endir! Það halda allir að þú kunnir ekki að láta verk enda forte!“ Strauss tók sig til og samdi nýtt niðurlag fyrir blásara, sem vex upp í fortissimo en deyr síðan smám saman út.