EN

Anna Þorvaldsdóttir: Metacosmos

Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) er eitt kunnasta tónskáld Íslands um þessar mundir. Verk hennar hafa komið út á hljómdiskum hjá Deutsche Grammophon og Sono Luminus, og hún hefur samið m.a. fyrir Ensemble Intercontemporain, The International Contemporary Ensemble (ICE) og The Crossing Choir. Hún hlaut Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2012 fyrir verk sitt Dreymi, sem var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Anna er nú staðartónskáld SÍ og gegnir margþættu hlutverki í starfi hljómsveitarinnar. Hún situr í verkefnavalsnefnd hljómsveitarinnar og er í forsvari fyrir tónskáldastofuna Yrkju, sem er samstarfsverkefni Sinfóníunnar og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit.

Anna hlaut hin virtu Kravis Emerging Composer Award hjá Fílharmóníusveit New York-borgar árið 2015 og Metacosmos varð einmitt til sem hluti þeirrar viðurkenningar. Fílharmóníusveit New York pantaði verkið og var það frumflutt í apríl 2018 undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Verkið hlaut frábæra dóma; ekki leið á löngu þar til Fílharmóníusveit Berlínar flutti Metacosmos undir stjórn Alans Gilbert og Sinfóníuhljómsveit San Francisco lék verkið undir stjórn Esa-Pekka Salonen.

Í verkum Önnu er hljóðheimurinn oft víðfeðmur og gjarnan innblásinn af framvindu og hlutföllum í náttúru og landslagi. Metacosmos er að hennar sögn samið í kringum náttúrulegt jafnvægi fegurðar og óreiðu, hvernig sannfærandi heild getur komið saman úr því sem virðist við fyrstu sýn sundurleitt og óreiðukennt. Kveikjan að verkinu er eins konar myndhverfing, þar sem hugmyndin um að falla í svarthol – hið ókunna – liggur til grundvallar með óteljandi samsetningum andstæðra afla sem tengjast og eiga í samskiptum sín á milli, víkka út og dragast saman. Þessir ólíku þættir takast á og togast á úr öllum áttum, og maður áttar sig smám saman á því að maður sogast inn í eðliskraft sem maður hefur enga stjórn á.