EN

Anna Þorvaldsdóttir: Heyr þú oss himnum á

Heyr þú oss himnum á, við samnefnt kvæði séra Ólafs frá Söndum, er ein elsta útgefna tónsmíð Önnu Þorvaldsdóttur, samin árið 2005 þegar Anna var 28 ára gömul en eldri verk í útgefinni tónverkaskrá hennar eru kórverkið Heyr mig mína sál (einnig við kvæði séra Ólafs) og sembalverkið Fingerprints, bæði frá 2003.

Heyr þú oss himnum á var samið fyrir Sumartónleika í Skálholtskirkju. Anna var í hópi fjögurra ungra tónskálda sem bauðst að gegna stöðu staðartónskálds sumarið 2005 ásamt þeim Gunnari Andreas Kristinssyni, Huga Guðmundssyni og Þóru Marteinsdóttur sem öll voru að stíga sín fyrstu skref á tónsmíðabrautinni. Anna hafði lokið BA-prófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands ári áður en þar hafði hún notið leiðsagnar Mistar Þorkelsdóttur og Þorkels Sigurbjörnssonar.

Kveikjan að kórverkinu er gamall miðaldasálmur, tvíradda Sanctus, sem finna má í handriti af Kvæðabók séra Ólafs Jónssonar frá Söndum en í Morgunblaðsviðtali við ungu staðartónskáldin fjögur sumarið 2005 talar Anna um hve lærdómsríkt og gefandi það hafi verið að sökkva sér í tónlistararf fyrri alda og veita inn í samtímann. Verk Önnu er innblásið af gömlum hljóðheimi og miðaldalaglínum, undurfalleg, hugleiðslukennd og heillandi perla sem hefur ferðast víða, komið út í fjölmörgum hljóðritum og hljómað í meðförum kóra um allan heim.

Hljómeyki frumflutti Heyr þú oss himnum á í messu í Skálholtskirkju í júlí 2005 undir stjórn Árna Harðarsonar en verkið hefur síðan hljómað í flutningi ótal kóra á Íslandi, hvort tveggja á tónleikum og í hljóðriti. Þetta er í fyrsta sinn sem kórverk Önnu Þorvaldsdóttur er flutt á tónleikum SÍ.