EN

Klaus Mäkelä

Hljómsveitarstjóri

Hinn finnski Klaus Mäkelä (f. 1996) er þegar orðinn einn eftirsóttasti hljómsveitarstjóri Norðurlanda þótt hann sé ekki nema rúmlega tvítugur að aldri. Hann tók nýverið við stöðu aðalgestastjórnanda hjá Sænsku útvarpshljómsveitinni auk þess sem hann er staðarlistamaður Tapiola-sinfóníettunnar og mun meðal annars stjórna þar Beethoven-hring sem spannar næstu þrjú starfsár. Hann þreytti nýverið frumraun sína hjá Konunglegu fílharmóníunni í Stokkhólmi og sinfóníuhljómsveitunum í Lahti, Ottawa og Minnesota, auk þess að stjórna Fílharmóníusveitinni í Helsinki og Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg. Mäkelä hefur einnig látið að sér kveða sem óperustjórnandi og stýrði til dæmis Töfraflautu Mozarts hjá Finnsku þjóðaróperunni í desember 2017. 

Mäkelä lærði hljómsveitarstjórn hjá Jorma Panula við Sibeliusar-akademíuna og stundaði einnig sellónám hjá Marko Ylönen og Timo Hanhinen. Hann hefur komið fram sem einleikari með fjölda hljómsveita og einnig leikið kammertónlist víða um heim.

Á næsta ári tekur hann við stöðu listræns stjórnanda tónlistarhátíðarinnar í Turku í Finnlandi, og í síðustu viku var tilkynnt að hann yrði næsti aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Ósló frá og með haustinu 2020. Mäkelä stjórnar nú fyrstu áskriftartónleikum sínum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann stjórnaði hljómsveitinni á tónleikum á menningarnótt í ágúst síðastliðnum.