EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Fiðlukonsert

Konsert fyrir fiðlu og hljómsveit í þremur þáttum í D dúr, op. 35

Það er til marks um kaldhæðni örlaganna að tveir vinsælustu konsertar Tsjajkovskís – píanókonsertinn nr. 1 og fiðlukonsertinn – skuli í upphafi hafa fengið skelfilegar viðtökur. Þegar Tsjajkovskíj bað virtúósann Nikolaj Rubinstein að flytja píanókonsert sinn árið 1874 jós sá síðarnefndi úr sér skömmunum og lýsti því yfir að verkið væri „óspilandi,“ „klaufalega samið“ og í alla staði ómögulegt. Ekki tók betra við þremur árum síðar, þegar Tsjajkovskíj heimsótti fiðluleikarann Leopold Auer eina kvöldstund og færði honum fiðlukonsertinn. Auer hafði komið til Pétursborgar frá Búdapest áratug fyrr. Hann leiddi hirðhljómsveit keisarans auk þess sem hann kenndi við Tónlistarháskólann og var í miklum metum sem einleikari. Auer minntist fundarins síðar á þessa leið:

Tsjajkovskíj kom til mín eitt kvöld og rétti mér nótnahefti. Ég varð afar hissa þegar ég sá að þetta væru nóturnar að fiðlukonsertinum, fullgerðum og prentuðum, og að verkið var tileinkað mér. Ég fylltist strax þakklæti fyrir rausnarskapinn, en eftir því sem ég kynnti mér verkið nánar fór ég að óska þess að hann hefði sýnt mér nóturnar fyrst. Þá hefði hann sparað okkur báðum margar óþægilegar stundir.

 

Auer heldur áfram: „Ég dáðist að verkum Tsjajkovskíjs og hafði gert mitt ítrasta til að fá sinfóníur hans fluttar víða um heim, en ég var ekki jafn sannfærður þegar kom að fiðlukonsertinum. Ég er enn sama sinnis. Biðin sem varð á því að ég léki hann opinberlega kom til vegna þess að ég efaðist um gildi verksins og fannst nauðsynlegt að gera smávægilegar breytingar á fiðluröddinni af tæknilegum ástæðum. Það er ekki rétt að ég hafi sagt konsertinn óspilandi. Hins vegar sagði ég að sumir staðirnir hentuðu illa hljóðfærinu og myndu ekki hljóma eins vel og Tsjajkovskíj hefði ímyndað sér.“

Raunar var Auer alls ekki fiðluleikarinn sem Tsjajkovskíj hafði í huga þegar hann samdi konsertinn í bænum Clarens á bökkum Genfarvatns vorið 1878. Þangað hélt hann í leit að hugarró eftir stórfenglega misheppnað hjónaband sem lauk með sjálfsmorðstilraun. Honum tókst smám saman að ná fyrri styrk á ný og vann m.a. að því að útsetja fjórðu sinfóníuna og óperuna Évgéní Ónégin. Hins vegar gekk honum illa að fá nýjar hugmyndir, eins og sést af örvæntingarfullum bréfum hans. „Er ég búinn að vera? Ég þarf að kreista út úr sjálfum mér jafnvel fátæklegar og einskisverðar hugmyndir, og hugleiða hvern einasta takt tímunum saman áður en ég festi hann á blað.“

Um miðjan marsmánuð kom ástmaður Tsjajkovskís til Clarens, ungur og myndarlegur fiðluleikari að nafni Josef Kotek. Hann hafði verið tónfræðinemandi Tsjajkovskíjs og það var hann sem kom á bréfasambandi milli Tsjajkovskíjs og ekkjunnar Nadezhdu von Meck, og tryggði þannig fjárhagslega afkomu tónskáldsins í meira en áratug. Það lifnaði yfir tónskáldinu eftir komu Koteks og fyrstu dagana lásu þeir saman í músíkstofunni hvert verkið á fætur öðru, m.a. hinn glænýja konsert Eduards Lalo, Symphonie espagnole. „Þetta er yndislega fersk tónlist,“ skrifaði Tsjajkovskíj skömmu síðar, „létt og rytmísk, með fögrum og stórkostlega hljómsettum laglínum.“ Aðeins örfáum dögum síðar var Tsjajkovskíj sjálfur sestur við skrifborðið og farinn að semja lagrænan og ferskan fiðlukonsert sem hann lauk við á ellefu dögum. Kotek varð fyrstur til að leika hann við píanóundirleik tónskáldsins. Hann lýsti yfir mikilli ánægju með verkið að hæga þættinum undanskildum, sem honum fannst ekki jafnast á við þá ytri í innblæstri. Fór svo að Tsjajkovskíj samdi nýjan þátt og gaf hinn fyrri út undir nafninu Méditation.

Tsjajkovskíj tileinkaði Kotek ekki konsertinn og lét í það skína í bréfi til útgefanda síns að það væri gert til að ýta ekki undir slúður um samband þeirra. Þess í stað leitaði hann til Auers eins og rakið var að ofan, en að lokum var það Adolf Brodsky sem frumflutti konsertinn í Vínarborg 1881 og hlaut tileinkunina að launum. Viðbrögð áheyrenda voru í dræmara lagi og gagnrýnendur tóku konsertinum með eindæmum illa: „Hæfileikar Tsjajkovskíjs eru uppblásnir og orðum auknir. Þótt hann þykist vera snillingur er hann í raun sneyddur allri fágun og góðum smekk. Fiðlukonsert hans er langur og tilgerðarlegur. Hann byrjar að vísu nokkuð vel, en ekki líður á löngu þar til ruddaskapurinn tekur völdin. Þá er ekki lengur leikið á fiðluna, heldur er hún barin til óbóta.“ Sá sem ritaði þessi orð var Eduard Hanslick, virtasti tónlistarskríbent sinnar tíðar. Sagt er að Tsjajkovskíj hafi allt til dauðadags getað farið með dóm hans orðréttan fyrir hvern þann sem heyra vildi.