EN

Stuart Skelton syngur Wagner

Julia Hantschel leikur óbókonsert eftir tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinů

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
25. feb. 2021 » 20:00 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.400 – 5.700 kr.
Horfa

Í ljósi rýmkunar á samkomutakmörkunum hefur hljómsveitin bætt við fleiri sætum á tónleikana.

Stuart Skelton syngur hrífandi og munúðarfulla ástarsöngva sem Wagner samdi við ljóð ástkonu sinnar Mathilde Wesendonck á tónleikunum og verður þeim streymt í hljóði og mynd í beinni útsendingu hér á vef sveitarinnar. 

Stuart er einn fremsti tenórsöngvari heims um þessar mundir og hefur meðal annars komið fram við Metropolitan-óperuna í New York og La Scala í Mílanó. Hann söng hlutverk Peter Grimes í samnefndri óperu Benjamins Britten í uppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar á Listahátíð í Reykjavík 2015. Það er því mikið fagnaðarefni að fá hann aftur til liðs við hljómsveitina. 

Forspilið að hinu mikla ástardrama um Tristan og Ísold markaði tímamót í tónlistarsögunni og sama gildir um hinn undurfagra „Ástardauða Ísoldar“, endalok verksins.

Tónleikarnir hefjast á sjaldheyrðum óbókonsert eftir Bohuslav Martinů en hann var eitt af leiðandi tónskáldum Tékklands á 20. öld. Konsertinn var saminn árið 1955 og er sérlega áheyrilegt verk, í stíl sem minnir nokkuð á tónmál Stravinskíjs. Einleikari í verkinu er þýski óbóleikarinn Julia Hantschel, sem hefur gegnt stöðu leiðandi óbóleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2018. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveita Íslands.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 200 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

Horfðu í beinni – tónleikarnir verða teknir upp í mynd og streymt beint á vef hljómsveitarinnar ásamt því að þeir eru hljóðritaðir og sendir út í beinni útsendingu á Rás 1. 

Fáðu senda áminningu þegar beint streymi frá tónleikunum er að hefjast.