EN

Sayaka Shoji

Fiðluleikari

Sayaka Shoji (f. 1983) fæddist í Tókýó en ólst upp í Siena á Ítalíu og hóf tónlistarnám fimm ára gömul. Hún lærði hjá Zakhar Bron í Köln frá 15 ára aldri og debúteraði í Musikverein í Vínarborg árið 1997. Árið 1999 hreppti hún fyrstu verðlaun í Paganini-keppninni og um svipað leyti kynntist hún hljómsveitarstjóranum Zubin Mehta sem hefur allar götur síðan verið einn dyggasti stuðningsmaður hennar.

Shoji hefur leikið með mörgum helstu hljómsveitum heims, meðal annars Fílharmóníusveitunum í Berlín og New York, Sinfóníuhljómsveit Lundúna og Santa Cecilia-hljómsveitinni í Róm. Hún hefur einnig komið fram á Verbier-hátíðinni, Beethoven-hátíðinni í Bonn og lék nýverið á tónleikum í Wigmore Hall í Lundúnum. Árið 2015 hljóðritaði hún allar sónötur Beethovens fyrir píanó og fiðlu ásamt píanistanum Gianluca Cascioli. Fyrir nokkrum vikum kom út nýjasti geisladiskur hennar hjá Deutsche Grammophon, fiðlukonsertar eftir Beethoven og Sibelius sem hún flytur ásamt Fílharmóníusveit Sankti Pétursborgar. Shoji leikur á Stradivarius-fiðlu frá árinu 1729 sem hún hefur að láni hjá japanska fyrirtækinu Ueno.

Sayaka Shoji hefur ekki áður leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands en hún hefur þrívegis áður komið fram á Íslandi, á hátíðinni Reykjavík Midsummer Music í Hörpu árin 2014, 2015 og 2017.