Leonard Bernstein: Candide, forleikur
Leonard Bernstein (1918–1990) var vonarstjarna bandarískrar tónlistar á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina og bræddi saman djass og alvarlegri músík af kunnáttu sem fáum var gefin. Hann átti það líka sameiginlegt með ýmsum helstu snillingum tónlistarinnar að geta unnið að tveimur gjörólíkum verkum á sama tíma. Þannig var það til dæmis með söngleikina Candide og West Side Story, sem báðir urðu til á árunum 1955–57 undir áhrifum frá aldagömlum sögum, en spegla ástandið í Bandaríkjunum hvor með sínum hætti. Í West Side Story er sagan af Rómeó og Júlíu látin ná til innflytjenda á Manhattan um miðja 20. öld; Candide (Birtingur) er byggður á ádeilusögu franska upplýsingarskáldsins Voltaires um ævintýri ungs manns sem telur sig búa í „hinum besta heimi allra heima“ en kemst að því að tilveran er flóknari en svo.
Það var ekki tilviljun ein sem réð því að hinn vinstrisinnaði Bernstein tókst slíkt verk á hendur. Textahöfundur var leikskáldið Lillian Hellman sem hafði verið kölluð fyrir „And-amerísku nefndina“ svokölluðu, sem starfaði á vegum Bandaríkjaþings undir forystu öldungadeildarþingmannsins Josephs McCarthy og kannaði stjórnmálaskoðanir þeirra sem störfuðu á sviðum lista og menningar. Hellman var um skeið sett út á gaddinn vegna viðhorfa sinna og sama gilti um ýmsa nána vini Bernsteins, meðal annars tónskáldið Aaron Copland. Löngu eftir lát Bernsteins kom líka í ljós að bandaríska leyniþjónustan FBI fylgdist með honum vegna stjórnmálaafskipta hans á árunum 1949–63. Þrátt fyrir léttúðugt yfirbragð var Candide því beinlínis ádeila á hið ofsóknarkennda ástand og þá skoðanakúgun sem einkenndi bandarískt stjórnmála- og menningarlíf um þetta leyti.
Í West Side Story eru áhrif bandarískrar dægurtónlistar greinileg en í Candide er Bernstein á slóðum hinnar evrópsku óperettu. Verkið fékk fremur dræmar viðtökur við frumsýningu á Broadway árið 1956 og var sýningum hætt eftir aðeins tvo mánuði, en eftir viðamiklar endurbætur árið 1974 komst Candide í flokk vinsælustu sviðsverka af þessum toga. Forleikurinn er glaðværðin uppmáluð og hér fléttar Bernstein saman efni úr þremur lögum söngleiksins. Lúðraþytur upphafstaktanna er sóttur í lagið „Best of All Possible Worlds“ en ljóðrænt seinna meginstefið er úr ástardúettinum sérkennilega „Oh, Happy We“ – þar sem elskendurnir Birtingur og Kúnigúnd tala hvort í sína áttina um takmörk sín og þrár. Fjörugir lokataktarnir eru aftur á móti úr frægri flúraríu Kúnigúndar, „Glitter and Be Gay“.