EN

Sinfónían í 70 ár

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt sína fyrstu tónleika í Austurbæjarbíói þann 9. mars 1950. Hér má lesa skemmtilegt söguágrip sem Árni Heimir Ingólfsson ritaði og birtist í tónleikaskránni á 70 ára afmælistónleikum hljómsveitarinnar 5. mars 2020. 

Það voru bjartir dagar í íslensku menningarlífi vorið 1950, þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið hófu starfsemi með aðeins fárra vikna millibili. Hið unga lýðveldi fann þörf til að láta að sér kveða í menningu og listum og með samstilltu átaki ríkis, borgar, Ríkisútvarps og einkaaðila tókst að tryggja fjármagn til reksturs sinfóníuhljómsveitar – þótt fyrstu árin væri hún eins konar kammersveit, taldi aðeins 40 hljóðfæraleikara. Oft var rekstrargrundvöllur tæpur og fór eftir þeim sem sátu við völd hverju sinni. Um skeið gekk sveitin undir nafninu „Sinfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins“ og veturinn 1955–56 lá tónleikahald alfarið niðri. Raunar var það ekki fyrr en árið 1982 að Alþingi samþykkti lög um hljómsveitina og setti þannig varanlegt form um rekstur hennar.

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í Austurbæjarbíói 9. mars 1950. Róbert Abraham Ottósson stjórnaði hljómsveitinni, en á efnisskránni voru verk eftir Beethoven, Schubert, Haydn og Bartók. Ljósmynd: Sigurhans Vignir (Ljósmyndasafn Reykjavíkur). 

Kraftaverkið er auðvitað hversu vel hefur tekist að koma upp góðri sinfóníuhljómsveit á ekki lengri tíma. Sambærilegar hljómsveitir í háborgum heimsmenningarinnar byggja starf sitt á ævagömlum grunni, þar hafa framfarir verið markvissar svo öldum skiptir. En hér á landi var lítið um það sem kalla mætti klassíska tónlist á fyrstu árum 20. aldar. Í Reykjavík voru fáeinir hljóðfæraleikarar sem flestir sinntu list sinni í hjáverkum. Hljóðfæri voru fá og engin framúrskarandi. Þegar Haraldur Sigurðsson píanóleikari hélt einleikstónleika í Gamla bíói árið 1914 varð hann að gera sér að góðu að leika sónötur Beethovens á stofupíanó, því að konsertflygill var ekki til staðar. Straumhvörf í samspili urðu ekki fyrr en árið 1921, þegar Þórarinn Guðmundsson stýrði á tónleikum hljóðfæraflokki sem síðar fékk heitið Hljómsveit Reykjavíkur og var eins konar forveri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Saga hljómsveitarleiks á Íslandi telur því enn innan við 100 ár.

Fræðslu- og skólatónleikar hafa verið mikilvægur þáttur í starfsemi hljómsveitarinnar allt frá stofnun hennar. Hér sést hljómsveitin leika fyrir fullum sal í Íþróttahúsi Melaskóla, líklega árið 1951 eða 1952. Ljósmynd: Pétur Thomsen eldri (Ljósmyndasafn Reykjavíkur).

Vitaskuld hafa meðlimir Sinfóníuhljómsveitarinnar sjálfir borið hitann og þungann af þeim framförum sem orðið hafa síðustu sjö áratugi. Með elju sinni, metnaði og þrotlausum æfingum hafa þeir lyft tónlistarmenningu landsins á nýtt stig. Þó er vert að minnast þess að nokkrir stjórnendur af erlendu bergi brotnir veittu hinni ungu sveit liðsinni sitt fyrstu árin, þegar starfsemin var enn brothætt og mikið reið á ötulli forystu. Stjórnandi á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands var landflótta Þjóðverji af gyðingaættum, Róbert Abraham, sem hlaut hér vist árið 1935 og launaði lífgjöfina með margvíslegu framlagi til tónlistarlífsins um áratuga skeið. Austurríkismaðurinn Victor Urbancic var annar snjall tónlistarmaður sem hingað flúði ógnarstjórn nasista og stýrði fjölmörgum tónleikum sveitarinnar fyrstu árin; landi hans, Páll Pampichler, var síðar aðstoðarstjórnandi sveitarinnar í meira en tvo áratugi. Hljómsveitin naut líka góðs af því að meðan það varði var Ísland í miðri víglínu kalda stríðsins. Sovésk og bandarísk menningaryfirvöld voru einkar fús til að senda hingað afburða tónlistarfólk, hljómsveitarstjóra og einleikara, sem auðguðu tónlistarlíf borgarinnar til muna. Þannig má nefna að tveir aðalstjórnendur hljómsveitarinnar, William Strickland frá Bandaríkjunum og Bohdan Wodiczko frá Póllandi, voru sendir hingað með samþykki yfirvalda í heimalandi sínu og jafnvel með fjárhagslegum stuðningi þaðan. Á síðari árum ber líka að nefna stórmerkt framlag finnskra stjórnenda við framgang hljómsveitarinnar, en Eva Ollikainen tekur við stöðu aðalstjórnanda sveitarinnar haustið 2020 og fetar þar í fótspor landa sinna, Petri Sakari og Osmo Vänskä. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti starfsemi sína í Háskólabíó árið 1961 og var það aðsetur hennar í hálfa öld. Hér sjást skólabörn flykkjast á tónleika hljómsveitarinnar, líklega um 1962–65.  

Ekki má heldur láta hjá líða að nefna Vladimir Ashkenazy, rússneska píanósnillinginn sem fyrst lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1964 og þreytti frumraun sína sem stjórnandi á tónleikum hennar árið 1971. Þannig hófst gæfuríkt samstarf sem lauk með tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitarinnar til Japans haustið 2018 og þótti hin mesta sigurför. Ashkenazy var talsmaður hljómsveitarinnar um víða veröld, fékk vini og samstarfsfólk hingað til tónleikahalds og átti drjúgan þátt í því að Harpa reis að sameiginlegu frumkvæði ríkis og borgar. Og sé litið yfir þann hóp stjórnenda sem Sinfóníuhljómsveitin hefur kallað til liðs sem aðalstjórnendur (og aðalgestastjórnendur) sést að hann er fjölbreyttur bæði hvað varðar efnistök, persónuleika og landfræðilegan uppruna; stjórnendur frá Noregi (Kielland), Póllandi (Wodizcko), Frakklandi (Jacquillat og Tortelier), Englandi (Gamba), Ísrael (Volkov), Rússlandi (Ashkenazy og Rosdestvenskíj) – og svo vitaskuld Finnarnir sem áður var getið.

Vladimir Ashkenazy og Daniel Barenboim æfa píanókonsert nr. 2 eftir Chopin í Háskólabíói í desember 1971. Barenboim var einn þeirra framúrskarandi tónlistarmanna sem komu til Íslands fyrir tilstilli Ashkenazys. Þetta var í fyrsta sinn sem Ashkenazy stjórnaði tónleikum hljómsveitarinnar, en hann stýrði henni síðan á fjölda tónleika og tók við stöðu heiðursstjórnanda árið 2002. Ljósmynd: Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon.

Segja má að fyrstu 60 árin hafi Sinfóníuhljómsveit Íslands glímt við ófullnægjandi starfsskilyrði. Tónleikar hennar fóru fram í Austurbæjarbíói og Þjóðleikhúsinu fyrstu árin, síðar í Háskólabíói. Upp úr 1980 komst umræða um tónlistarhús í Reykjavík á skrið. Því var fyrst ætlaður staður í Laugardal en árið 1998 lagði stýrihópur á vegum ríkis og borgar til að húsið risi í miðbæ Reykjavíkur. Með opnun Hörpu vorið 2011 sköpuðust í fyrsta sinn kjöraðstæður fyrir hljómsveitina og má fullyrða að á þeim tæpa áratug sem síðan er liðinn hafi starfsemi hennar blómstrað.

Með tilkomu Hörpu fékk Sinfóníuhljómsveit Íslands loks tónleikasal á heimsmælikvarða. Hér er hljómsveitin ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni einleikara á fyrstu tónleikunum í Hörpu í maí 2011. Ljósmynd: Morgunblaðið/Ómar. 

Fjölbreytni ríkir í verkefnavali hljómsveitarinnar sem spannar allt frá barokktónlist til frumflutnings á nýjum verkum. Sú áhersla sem lögð er á flutning nýrrar íslenskrar tónlistar hefur vakið athygli víða, síðast með hljómdiskinum Concurrence sem kom út í lok síðasta árs og fékk fyrir fáeinum dögum fyrirtaks umsögn í því virta blaði Gramophone. Þess má geta að á síðustu fimmtán árum hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands leikið inn á yfir 30 hljómdiska sem flestir hafa komið út hjá alþjóðlegum forlögum og hlotið umfjöllun og lof víða um heim. Þannig nær hljómsveitin til stærri hlustendahóps en gæti nokkru sinni rúmast í Hörpu eða öðrum þeim sölum sem hún leikur í. Sú tónlist sem gefin hefur verið út síðustu ár er af einkar fjölbreyttum toga: Anna Þorvaldsdóttir, Daníel Bjarnason og Jón Leifs, svo dæmi séu tekin, en einnig Skálmöld og Páll Óskar. Sé Sinfóníuhljómsveit Íslands borin saman við sambærilegar sveitir í öðrum löndum sker hún sig úr fyrir fjölbreytni verkefnavals, og þannig nær hún líka til breiðari hóps hlustenda en ella. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einmitt allt frá fyrsta degi verið þjóðarhljómsveit og forráðamenn hennar meðvitaðir um nauðsyn þess að ná til sem flestra – með ýmsum hætti. Samstarf við Ríkisútvarpið hófst þegar með fyrstu tónleikum hennar, sem voru hljóðritaðir en raunar ekki sendir út beint. Í áranna rás hefur RÚV verið dyggur fylginautur hljómsveitarinnar í beinum útsendingum og um leið skapað ómetanlegt safn sem ekki á sinn líka þegar kemur að skráningu íslenskrar menningarsögu: hljóðritanir nær allra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands allt frá upphafi. Undanfarin ár hefur hljómsveitin tekið nýja tækni í sína þjónustu og streymt völdum tónleikum bæði á netinu og í útsendingum til skóla á landsbyggðinni. Fræðslustarf hefur verið hluti af starfi hljómsveitarinnar frá fyrstu tíð. Hún hélt fyrstu formlegu skólatónleika sína árið 1952 og á síðustu árum hefur sá hluti starfsins verið efldur með skipulögðum hætti. Nú sækja um 15.000 börn og ungmenni fræðslutónleika hljómsveitarinnar hvert ár, og ekki má heldur gleyma Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem hefur síðastliðinn áratug gefið efnilegum tónlistarnemum kost á hljómsveitarspili við bestu mögulegu aðstæður. 

Tónleikaferðir eru fastur liður í starfi sinfóníuhljómsveita um allan heim. Þannig gefst tækifæri til að kynnast nýjum áheyrendum og sinna hinni listrænu köllun á breiðari vettvangi en ella. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur farið reglulega í tónleikaferðir innanlands allt frá fyrsta starfsári sínu. Fyrsta utanlandsferðin var til Færeyja árið 1977 en síðan hefur sveitin farið lengri vegalengdir og jafnvel í aðrar heimsálfur. Meðal áfangastaða má nefna Musikverein í Vínarborg (1981), Carnegie Hall í New York (1996 og 2000), Royal Albert Hall í Lundúnum (2014) og Konzerthaus í Berlín (2019). Á slíkum tónleikum er leikur hljómsveitarinnar metinn á alþjóðlegan mælikvarða sem mark er tekið á. Þegar aðalgagnrýnandi The New York Times segir kvöld með Sinfóníuhljómsveit Íslands vera „algjörlega einstakt“ og flutning hennar á sinfóníu eftir Sibelius vera einn þann besta sem hann hafi heyrt – þá sperrir heimsbyggðin eyrun. Og orðspor Íslands vex. Eða eins og ónefndur höfundur ritaði í eitt Reykjavíkurblaðanna árið 1951, þegar deilt var um tilveru hinnar nýstofnuðu hljómsveitar: „Það eru þó, þegar á allt er litið, fyrst og fremst menningarleg og listræn afrek íslenzku þjóðarinnar, sem hafa skipað henni virðingarsess á meðal þjóðanna, en ekki baráttan fyrir munni og maga, svo nauðsynleg sem hún er.“ 

Hér sést Osmo Vänskä stjórna hljómsveitinni á sviði Carnegie Hall í New York árið 1996, en tónleikarnir þar hlutu mikið lof tónlistargagnrýnanda The New York Times. Ljósmynd: Steve J. Sherman. 

Nýjar áskoranir bíða. Tímarnir gera aðrar kröfur til sinfóníuhljómsveita en áður var, um aukna fagmennsku og meiri fjölbreytileika, að spegla samfélag sitt með öðrum og breiðari hætti. Tónlist kventónskálda sem lengi lá í glatkistunni er eitt dæmi um slíkt; sama gildir um verk höfunda sem tilheyra minnihlutahópum og hafa því ekki fengið tækifæri sem þeim bar. Það að árið 2020 skuli kona í fyrsta sinn gegna stöðu aðalstjórnanda segir líka sína sögu. Sjötíu ár kunna að vera lögboðinn eftirlaunaaldur þegar einstaklingar eiga í hlut, en Sinfóníuhljómsveit Íslands gengur forvitin og framsækin inn í nýjan áratug.

- Árni Heimir Ingólfsson ritaði


Lesa ítarlegri sögu hljómsveitarinnar